mánudagur, apríl 26, 2004

2 1/2 tími í viðskiptafræðipróf. Jíha!
Annars er það ákveðið að ég skíri fyrsta son minn Tímgil (tímgill=hóstakirtill). ,,Tímgill Einarsson". Hljómar vel, ekki satt?
Eins hef ég hugleitt að fyrsta dóttir mín skuli heita Högnun.
Getur beygst eins og... Þórunn?

Við manmma vorum einmitt að nefna skemmtileg nöfn í gær, svo sem Ýr Eir og Þöll Dögg. Mamma stakk einnig upp á Nánd, Duld og Heild.
Dreif og Jata kæmu einnig til greina. Systkinin Viðar og Dreif. Múhúhaha! :Þ
Nojæja. Nóg komið af rugli. Læralæra. Helvítis páfagaukslærdómur. Polly wants a cracker.

föstudagur, apríl 23, 2004

Gleðilegt sumar!

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Í dag, þriðjudag, var síðasti skóladagurinn. Hann gekk nokkuð skemmtilega fyrir sig og ekki laust við að maður muni sakna margs úr skólanum og frá árunum hér. Bestu árin manns liðin. Það batnar sumsé ekki heldur mun nú allt fara hríðversnandi úr þessu. En það er óþarfi að sýta Björn bónda strax heldur réttara að gleðjast yfir mey að morgni. Dagurinn í dag var skemmtilegur, fórum m.a. á kaffihús með Eydísi félagsfræðikennara og sungum Alouette hjá Eydísi frönskukennara.
Þegar ég var lítill hélt ég að þetta lag væri um skíðaferð, (sbr. ,,Alúetta, ó ég var að detta") enda var því haldið að okkur hvítvoðungunum í Ísaksskóla og nöprum sannleik miskunnarlausrar fæðukeðju haldið leyndum fyrir okkur. Þetta lag er sumsé um reytingu fugls, fasana, að ég held. Je te plumerai. Ég plokka þig. Je te pumerai le dos, le bec, o.s.frv., fætur, háls goggur, you name it. Sumsé mjög skemmtilegt.

Í dag var mér veitt viðurkenning fyrir félagsstörf í MR, ég er, sem sagt, embættismaður ársins. Það gladdi mitt gamla hjarta. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu og ykkur öllum fyrir góðan vetur, en nú er kominn síðasti vetrardagur.

Dimissio á morgun...
Valete studia!

þriðjudagur, apríl 06, 2004

DV = félagslegir klámhundar


Ég er einn af þeim sem finnst vinnubrögð DV ómerkileg. Mér finnst ómerkilegt að velta sér upp úr saur þjóðfélagsins. DV er orðið slúðursnepill og eys menn auri.
Fréttirnar eru lágkúrulegar. Til að mynda "Grétars-málið": Heilsíðumynd á forsíðu af kærustu hins meinta ógæfumanns með fyrirsögninni Kærastan heimsótti Grétar í fangelsið!

Í fyrsta lagi: Hverjum stendur ekki á sama?

Kærastan fyrirgefur Grétari allt. -- Jamm, og Friðrik Weishappel keypti sér nýjan jeppa. Fjórhjóladrifinn, heyrði ég.

Í öðru lagi: DV er ekki í aðstöðu til að dæma aðra. Samanber lögregluskýrsluna alræmdu. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum, hmm?
Málið var ennþá í rannsókn og menn undir grun og einhver lekur til DV trúnaðarupplýsingum sem lögum samkvæmt eiga að vera milli málsaðila og réttarkerfis. DV birtir hana eins og ekkert sé og truflar vinnslu málsins.
Lengi lifi réttlætið! "Lekandinn" er sakhæfur en ekki DV!
Hver sem er getur lesið þetta en einungis má sakfella "lekandann" á meðan DV-snáparnir eru stikkfrí.
Þessir menn virðast svífast einskis til að rakka niður náungann. Upp í hugann koma orð í líkingu við "rógtungur" og "trosberar". Aðgát skal höfð í nærveru sálar, hmm?

Tökum til að mynda mál Kára Stefánssonar. Hann er sakaður um peningaþvætti. Í stað þess að leggja fram kæru fer slefberi með orðróminn í blöðin og DV birtir á forsíðu fullyrðingu þess efnis. Hvað varð um regluna "saklaus unns sekt er sönnuð"? Þeir hafa ekkert áþreifanlegt fyrir sér en taka sér dómsvald og sverta mannorð hans.
Þetta er ekki einsdæmi, iðulega er sora slegið upp á forsíðu.
Til að mynda var maður nýlega kærður fyir kynmök við drengi. Áður en var búið að dæma í málinu var búð að birta nafn hans og mynd. Þannig hefur hann verið brennimerktur. Eins og í villta vestrinu þegar menn voru skotnir fyrst og spurðir svo.

Ekkert virðist vera heilagt, hvorki einkalíf, mannorð né sanngirni.

Ég held að forstöðumenn DV megi sannarlega taka boðskap og speki Hávamála sér til fyrirmyndar:

Fróður sá þykist
er fregna kann
og segja ið sama
eyvitu leyna
megu ýta synir
því er gengur um guma

Ærna mælir
sá er æva þegir
staðlausu stafi
hraðmælt tunga
nema haldendur eigi
oft sér ógott um getur.

(Ef einhver skilur ekki gullaldarorðfarið þá getur sá hinn sama flett upp í orðabók!)

Nú er orðið ár og dagur síðan ég hef síðast bloggað. Þetta gengur auðvitað ekki lengur. Ég vil nú síst að þessi síða lognist út af og geyspi golunni, hverfi yfir móðuna miklu á Karons fleyi og drekki dauðann úr glasi á hinstu örlaganótt á meðan blóðrauðir sólstafir blinda tómar augntóftir. Kyndum dansinn, í nótt skín máni og eldtungur loga.

Jájá, maður er bara kominn í stuð! ;)

Margt hefur á daga drifið, í raun of margt til að tjói að nefna það hér. Við erum á fullu að æfa í kórnum, mikið af skemmtilegum lögum, m.a. West Side Story eins og áður hefur komið fram og lög úr Hárinu. Þar hefur einnig nýtt lag bæst í sarpinn.
Þarf náttúrulega vart að taka fram að það er æðislega gaman að syngja þetta. Í dag hlustuðum við svo á nokkur lög af disknum (uprunaleg uppfærsla) og það var vægast sagt tilkomumikið! Kórusinn og beat-ið, falleg en rokkuð tónlist en um leið með krafti og attitjúd þar sem það átti við. Og rytminn mjög grúví, nánast ómögulegt annað en að fara að hreyfa sig eftir tónlistinni. Gífurlegt púður í þessu.
Diddi fiðla kemur svo á þriðjudaginn. Hann var náttúrulega í Náttúru á sínum tíma, en þeir önnuðust einmitt hljófæraleik í Hárinu, þegar það var fyrst sett upp hér á landi.
Mig hefur alltaf langað til að geta nálgast eitthvað með Náttúru. Ég veit að einungis ein plata með þeim hefur komið út á vínil, en hún virðist hvergi fáanleg. Mjög ergilegt, sérstaklega þegar maður hefur heyrt það mikið lof um sveitina. Eins veit ég ekki hvort fleiri upptökur séu til en þær sem komu út á plötunni.
Jæja, ef einhver ætti að vita það þá væri það Diddi sjálfur.

Jamm, svo var auðvitað fiðluballið um daginn í Iðnói, og það var æðislegt. Skemmtilegasta og besta ball sem ég hef farið á í MR.

Við héldum vel heppnað bókmenntakvöld um daginn. Andri Snæ Magnússon og Hjört Pálsson til að lesa úr verkum sínum, Álfrún Gunnlaugsdóttir las úr yfir Ebrofljótið, Bragi Ólafsson las úr Við hinir einkennisklæddu og Hallgrímur Helgason las úr Þetta er allt að koma.

Fór annars á leiksýninguna og hafði afar gaman að. Afskaplega skemmtileg og frumleg sýning. Svo fór ég auðvitað á frumsýningu Lodds á Herranótt og sá Kvennó-sýninguna Glæstir tímar. Allar sýningarnar fundust mér afbragðs góðar. Doddi og Tótla léku bæði í Kvennó sýningunni og stóðu sig með stakri prýði.
Ég hef ekki enn lesið Þetta er allt að koma en hún er nú ofarlega á leslistanum mínum.

Jájá, nú er maður kominn í frí, en um leið er óhugnarlega stutt í stúdentspróf í Íslensku. Ekki það að efnið sé neitt leiðinlegt per se (tja, máske leiðinlegt að taka próf í því), en andsvíti mikið og nokkrir dagar eru þegar farnir í mest lítið.
Ég verð því að taka mér tak.

Hitti loks Agga og Alla eftir heillangan viðkilnað og fórum við á kenderí og spiluðum Tivial Pursuit auk þess að fíflast eins og vanvitar. Gaman gaman. Ég var í öðru sæti, vantaði eina köku upp á. Þá var Aggi reyndar háfsofnaður.

All things must pass. Nú er ekki annað að sjá en embættisferill minn í kvikmyndadeild sem ég hef gengt í tvo vetur sé senn á enda. Því ég sé ekki fram á að margir geti séð sér fært að mæta á sýningu vikuna fyri dimmissio.

Síðasta kvöldið var mjög vel heppnað. Það var vel mætt og afar góður andi. Þá sýndum við Monty Python-myndina Life Of Brian. Það var annars orðið langt síðan að ég sjálfur sá hana en hún er í miklu uppáhaldi hjá mér, eins og allar Monty Python-myndirnar enda ein fyndnasta og skemmtilegasta mynd sem gerð hefur verið.

Smá skemmtileg tilvitnun ;)

Brian: I'm not the Messiah! Will you please listen? I am not the Messiah, do you understand?! Honestly!
Girl: Only the true Messiah denies His divinity.
Brian: What?! Well, what sort of chance does that give me? All right! I am the Messiah!
Followers: He is! He is the Messiah!
Brian: Now, fuck off!
[silence]
Arthur: How shall we fuck off, O Lord?



Ég fór um daginn á Háskólakynninguna og var hún mjög áhugaverð og fræðandi. Þarna upplýkst manni heimur af endalausum möguleikum, og hvert öðru meira spennandi. Nú er maður farinn að spá í framtíðinni, hvað maður vill gera við líf sitt. En það háir mér dálítið að vera sveimhugi í þessum efnum, sjái ég eitthvað nýtt, sem ég hef máske aldrei spáð í áður þá ver maður að hugleiða möguleikana á því. Til að mynda var kona á heimspekideild að kynna mér japönsku, og gat tengt gagn námsins við fjölmargt, Japan í dag, viðskipti, kúltúr, blablabla....
Og þegar hún hafði einu sinni náð mér á sitt band ætlaði hún sko ekkert að sleppa mér og lét dæluna ganga, í örugglega hálftíma eða wsvo og ég hummandi og jánkandi eitthvað ,,áhugavert...”.
En ég vappaði fram og aftur og skoðaði hitt og þetta. Enn er það svo að ég hef mest áhuga á húmanískum fræðum hvers konar og þess háttar. Sagnfræðin togar í mig og eins er ég afar spenntur fyrir bókmenntafræði. Einnig er það að fögin hafa að geyma ótal skemmtilega undirflokka og kúrsa en auðvitað flækir það um leið valið. Það er svo margt skemmtilegt sem kemur til greina. T.a.m. er hægt að velja kvikmyndafræði sem undirkúrs af bókmenntunum. Það held ég að gæti átt vel við mig, enda kvikmyndaáhugamaður mikill og vandlátur grúskari (spyrjið bara Dodda, hann hefur oft þurft að bíða í klukkutíma eftir að ég geti náðarsamlegast fundið einhverja mynd sem ég get sæst á). Mér þætti líka gaman að helga mig íslenskum bókmenntum en það virðist ekki vera boðið upp á þær á bókmenntadeild. Til þess þarf að fara í íslensku. Það vona ég að ég gæti einhvern veginn tekið þær án þess að þurfa að taka málfræðina líka, alla vegana vekur hún ekki jafn mikið áhuga minn.
Annað sem ég hef alvarlega velt fyrir mér eru heimspeki, félagsfræði og allmenn trúarbragðafræði. Trúarbragðafræðin er tekin sem aukafag til 30 eininga.
Ég hef ávallt haft áhuga á framandi trúarbrögðum og eins norrænni goðafræði, alltént síðan ég las fyrst Goð og garpa og síðar Goð menn og meinnvætti er ég var hvítvoðungur í blautu barnsbeini.
Svo getur svo sem vel verið að maður fari í eitthvað allt annað. Leiklistarbakterían nagar alltaf eitthvað og eins Kvikmyndaskóli Íslands.
Ætli ég endi ekki bara sem eilífðarstúdent, afæta á samfélaginu, hehe.


Jájá, maður er búinn að vera merkilega heppinn með veður síðustu daga. Só og sumarblíða. Það er vonandi að vorið sé komið til að vera en annars er allra veðra von hér á Fróni og skipast fljótt veður í lofti, eins og dæmin sanna. Á nokkuð stuttum tíma hefur svissað frá góðu veðri yfir í regn, síðan snjó, síðan slyddu, gott veður frost, o.s.frv. Magnað.

Auk þess að þurfa að læra á morgun og fara í síðasta gítartímann þarf ég að laga til í námspappírum mínum. Fellingafjöllin hrannast upp og foreldrar mínir eru alveg að fara úr hárum yfir svínastíunni. En ég er að vinna í þessu, gallinn er bara að magnið er yfirþyrmandi og hægara sagt en gert að flokka þetta allt.

laugardagur, apríl 03, 2004

Með þessu áframhaldi ætti ég kannski að breyta nafni þessarar síðu í ,,Letibloggarinn"...

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.