Eftirfarandi er eilítil samantekt á því helsta sem á daga mína hefur drifið undanfarið og ég man eftir. :)
Árshátíðarvikan og árshátíðin sjálf voru mjög skemmtileg. Sunnudag vorum við Einar nafni með Útvarpsþátt dauðans á útvarp Framtíðinni. Einkenndist sá þáttur af djúpum vangaveltum um tilveruna og stöðu mannsins í firrtu nútímasamfélaginu og þjóðfélagsstöðu á öldum ljósvakans auk ljúfra tónna Músiku og allmenns fíflaskapar. Ræddum við um allt frá brjóstmylkingnum Janet Jackson til lýtaðgerða, klámvæðingu, og ég man ekki hvað. Afar skemmtilegt. Langaði að ræða við herra John Kukoma um ástandið í Nígeríu og F.O.O.L.-söfnuðinn en bannað var að hringja til útlanda. Við tókum við áskorunum frá símhringjendum og fengum þrjár áskoranir um að afklæðast að ofan. Og tvær um að hætta að spila þessa andskotans djöflamúsík. Kannski hefði þá verið viðeigandi að spila Highway to Hell afturábak, slátra geit og drekka blóð óspjallaðra arískra meyja. Við afrekuðum hins vegar það að dansa Moonwalkið berir að ofan í beinni útsendingu (webcam).
Það var fyndið.
Miðvikudagurinn var líka ánægjulegur, þá skrapp hópur af valinkunnu andans fólki í Bláa lónið. Þetta voru dulítil viðbrigði fyrir mig, fyrsta skiptið sem ég kom þangað, trúið því eður ei. Hitti Alla og Tótu þar, long time no see vægast sagt og urðu fagnaðarfundir. Þegar við vorum loksins komin þá virtist sem svo að við hefðum ca. klukkutíma, enda misskilningur hjá starfsfólkinu að við ættum að borga 1500 krónur í stað 1000, eins og auglýst hafði verið. Það leystist þó þegar framtíðarfólk kom, fFramtíðin borgaði 500 með á hvern. En þurftum þó að bíða í allav. hálftíma.
Hvað um það, afar gaman í Lóninu, frískaði mann og endurnærði og áttum við afar skemmtilegt kvöld saman. Léttur andi yfir fólki og flipppað feitt. Allir útmakaðir í leir og hljóta að hafa líkst marbendlum úr neðra.
Yndislega gott líka að fara undir ,,fossinn” með háls og herðar, enda hafði ég verið að drepast í báðum, einhver fjárans vöðvabólga.
Á fimmtudagsmorgunn var svo vænsta morgunpartý hjá Mumma. Ásamt sambekkingum var litlu bútunum úr 3. J boðið, stöldruðu þau um stund en fóru svo eitthvað út í bláinn. Gæddum okkur á góðgæti og horfðum á árshátíðarmyndina.
Garðari tókst að toppa sjálfan sig þennan dag. Hann var strax farinn að þamba viský og þegar liðið var á árshátíðarmyndina gaut ég augunum að honum; drengurinn sat í stólnum með steindauður af drykkju og enn með flöskuna í lúkunni. Og svipurinn á honum! Klukkan var hálf tvö. Bravissimó!
Við tókum höndum saman og drösluðum honum inn í herbergi Mumma, þar sem hann seldi upp.
Tókum við einnig tvær bráðskemmtilegar ljósmyndir af honum við þetta tækifæri.
En við urðum einhvern veginn að koma hræinu heim og komum honum (hysjuðum) í bíll Bigga, og svo keyrðum við 3 (ég Gunni og Biggi) hann heim, organdi af hlátri.
Litli bróðir hans var heima, við veltum fyrir okkur hvaða áhrif þetta hefði á hann, en þetta verandi Garðar, hlýtur hann að vera orðinn þaulvanur þessu.
Þótti afar vænt um einlæga og hlýja ræðu Sigurbjarnar Einarssonar biskups í Háskólabíó. Hann er elsti núlifandi forseti Framtíðinnar.
MR myndin var snilld sem ævinlega. Sérstaklega fór Atli á kostum sem Ernst Müller, seljandi aflátsbréf fyrir framan Landakotskirkju.
Um kvöldið var svo partý hjá Gunna. Það var gamant. 6.bekkingar og þriðjubekkingar. Patatíogpatata. Meiribjórmeiribjórmeiribjór. Röflandi um hitt og þetta. Drukkið og djammað. Fyndast var þó að heyra í Garðari, sem var risinn frá dauðum eins og Lasarus forðum, eitthvað á þessa leið: ,,Jájá, ég drakk dálítið mikið í morgun, en drapst samt ekkert. Það eru bara aumingjar sem drepast". Minnir svo að hann hafi sagst hafa labbað heim þegar hann var búinn að drekka nægju sína eftir partýið.
Tíhíhí. :Þ
Þaðan ekið á árshátíðina og slett úr klaufum. Hún var ansvíti skemmtileg. :D
Síðasta árshátíðin mín í Lærða skólanum. Jet Black Joe spilaði og ástmögur þjóðarinnar, Kalli Bjarni söng einnig en Páll Óskar þeytti skífum (söng máske líka, þá hef ég misst af því). Djammað og djúsað fram á nótt. Sumsé: Geðveikt!
Varð einnig vitni að því eftir ballið þegar gæslan tók byttu sem hafði verið að abbast upp á ýmsa, skellti henni í jörðina og fleygði honum í gám.
Ó, þetta mannkyn!
Ásdís og Inga héldu saman upp á afmæli sitt um daginn og þar var mikið stuð. Þar var samankomið mikið af góðu fólki og mikill glaumur og gleði. Siggi hafði lent í spjalli við miðaldra Bandarískan karl að nafni Richard. Hann var snælduruglaður. Röflaði um ,,kerlingar” með mannalátum og var farinn að gefa ungum stúlkum hýrt auga. Dirty old man. Þruglaði kvennafarsmontsögur, hékk utan í okkur og reyndi við stelpurnar. Maðurinn með reynsluna, leggjandi okkur lífsreglurnar. Ekki ósvipaður George W. Bush í útliti, hehe.
Núna um helgina kláraði ég The Song Of Names og átti að skila ritgerð á Mánudag. Föstudagsnóttina vakti ég og reyndi að koma upp beinagrind að henni, skrifaði ýmsa punkta en ekkert samhengi. Svo fór meirihluti Laugardagsins í hana.
Þessa helgi (Laugardag) var kórinn að æfa í Kaldárseli, ég komst fyrst um tíuleitið en kom það ekki að sök, það var kvöldvaka og einnig æft daginn eftir. Ég var þá smama og búinn með ritgerðina.
Ferðin var æðisleg, vöktum fram á rauða nótt við leiki, skemmtun og ærslagang, (t.a.m. Brennó og stórfiskaleik) en gátum einnig tekið því notarlega, glamrað á gítar, sungið og hlegið.
Þannig leið nóttin við glaum og gleði þangað til fólk fór að tkaka á sig náðir. Ég kíkti á stjörnurnar áður en ég fór að sofa, þær voru einstaklega skærar þessa nótt og ekki laust við að maður fylltist lotningu við að líta á þær. Varð svo loks að koma mér inn aftur, enda orðið skítkalt. Ég var örmagna af þreytu og við það að sofna þegar Dagur og Auðunn læðast inn í herbergið og byrja að syngja og spila á gítar. Þetta man ég úr textanum: ,,Vodka? Da!”
Æfðum svo vel næsta dag og skemmtum okkur þess á milli. Svo urðum við auðvitað að hreinsa til áður en haldið var í bæinn um fjögurleitið.
Meðan ég man, The Song Of Names er dásamleg. Lesið hana.
Meðal þess sem við syngjum eru tvö lög úr Hárinu, auk þess sem við syngjum West Side Story aftur (sungum það er ég var í 3. bekk). Ég missti af komu Didda fiðlu, en hann hefur útsett þetta. Hann kemur samt aftur Hann var náttúrulega í Náttúru í denn, sem mig minnir að hafi þá flutt tónlistina úr Hárinu. Ég hef annars alltaf viljað geta nálgast e-ð með Náttúru en hvergi fundið neitt. L
Jæja, ef einhver ætti að vita það, þá væri það hann.
Marteinn spurði um daginn á kóræfingu hverjir hefðu sungið þetta áður. Ég einn rétti upp hönd.
Maður er að verða gamall...
En þetta verk er mér einkar kært, get líka tengt það góðum minningum. Það á sérstakan stað í hjarta mínu.
Fór á heim farfuglanna um daginn og var gersamlega agndofa, svo heillaður var ég af henni.
Þessi mynd víkkaði hjá mér sjóndildarhringinn, ég get svarið það! Ég man varla eftir að hafa séð annað eins, eins skilur maður ekki hvernig þetta er hægt. Tekið á lofti eins og það væri gert af einum fuglanna í hópnum. Myndmálið...landslagið... ský af fuglum fljúgandi yfir allan heim, alllt þetta fékk maður að sjá og fleira til og stóð á öndinni. Á svona stundum skynjar maður fegurð heimsins.
Mig skortir orð til að lýsa þessari mynd, ég játa það. En svona er það oft með hluti sem hrífa mann. Ég mæli endilega með því að allir sjái þessa mynd, sem það hafa ekki gert.
Um daginn þurfti ég að velja milli lærdóms og að sjá King Kong hjá Bíó Reykjavík. Snannarlega ekki auðvelt val.
Nú er líka búið að endurgera Dawn Of The Dead. Alltaf þarf að hrófla við klassíkinni. Eins og ég hef lýst yfir áður áþessari síðu eru endurgerðir í minnst 98% tilvika hreinasta rusl, ein og ein góð en afgangurinn hörmulegur. Og ef þessi verður eitthvað lík endurgerð The Texas Chainsaw Massacre er ekki von á góðu...
Listavika verður í þarnæstu viku og munum við að öllum líkindum hafa bókmenntakvöldið þá. Meira um það seinna. Stay tuned.
Viðskiptafræðipróf á Mánudag. Úff.
Frönskuritgerð f. Mánudag. Alla vegana semi-úff.
Nýir strengir í gítarinn. Nú fer allt að rúlla. Er á gítarnámskeiði hjá Óla Gauk, þvergrip. Óli er mesti öðlingur og með vænni mönnum sem ég hef kynnst.
Bakkabróðir minn Vésteinn kemur heim á morgunn. Þá verður gaman :D
Ragna bekkjarsystir mín á afmæli á morgun. Finn eitthvað fallegt handa henni. J
Shine On You Crazy Diamond með Pink Floyd syngur í sál minni. Yfirþyrmandi gott lag.
Annars rifjaðist upp fyrir mér skemmtilegur gullmoli frá Agga, ég held frá því í fjórða bekk.
Ég (í stuði til að hlusta á tónlist): ,,Hvað segirðu um að við finnum okkur gott hljómflutningstæki og drekkum af veigum hinnar eðlu gyðju Músíku?
Þögn. Aggi horfir á mig furðulegu augnaráði: ,,Þú ert að tala um fyllerí, er það ekki?”
Og að lokum er spurning dagsins: Er Beta rokk Ásta Sigurðardóttir sinnar kynslóðar?
Vá! Löng færsla! Ég hugsa að ég fari bara að sofa. Enda máske kominn smá svefngalsi í mann
ZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZ
laugardagur, febrúar 28, 2004
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli