Langfeðratal
Er nýlega byrjaður að lesa sjálfsæfisögu langafa míns, Indriða Einarssonar. Hann fæddist á Húsabakka í Glaumbæjarsókn í Skagafirði árið 1851. Langafi var menntaður hagfræðingur, frumkvöðull í íslenskri leikritagerð og einn af helstu hvatamönnum þess að reist yrði þjóðleikhús í Reykjavík. Hann var mikill ástríðumaður um leikhús og leikritun, og leikstýrði bæði eigin verkum og annara en var aftur á móti alveg sjálfærður. Leikrit hans hafa ekki náð mikið að lifa eftir hans dag, nema helst Nýársnóttin og einhverjir kynnu í dag að kannast við Dansinn í hruna. Sjálfsævisagan Séð og lifað kom út árið 1936 en Indriði lést þremur árum síðar, 88 ára að aldri.
Sjálfsævisagan kemur skemmtilega á óvart. Indriði hefur mikla frásagnargáfu, er ferskur og skemmtilegur. Hann sameinar vel næmni, ljóðrænu og húmor og dregur upp ljóslifandi mynd af af uppvaxtarárum sínum í Skagafirði og mannlífinu þar um miðja 19. öld. Löngu horfið fólk á borð við Gísla Konráðsson, Konráð Gíslason og Bólu-Hjálmar lifnar við á síðunum.
Það sem foreldrar mínir möttust um, er gamalt deiluefni bæði hér og annars staðar. Hver er meiri, framkvæmdamaðurinn, sem hefur mikil mannaforráð og stýrir þeim með dug og djörfung eins og Bjarni Halldórsson? Vísindamaðurinn, sem ver landið fyrir alls konar erlendri bakmælgi eins og Arngrímur lærði? Eða segir fyrir lögin og lætur framkvæma manntalið og jarðatalið og skepnutalið 1703, með annari eins snilld og Páll Vídalín? Eða eru þeir meiri feðgarnir Gísli Konráðsson, sem mundi allt, sem hann hafði nokkurn tíma lesið eða heyrt, og þurfti, eins og hann ætti líf sitt að leysa, að skrifa það allt upp, til að forða því frá gleymsku, og var mesti fræðimaður á síðari hluta 19. aldar á þessu landi? Eða Konráð Gíslason, sem á síðari árum tæmdi alveg hvert efni, sem hann tók sér fyrir hendur að skýra? Eða Jón Þorláksson, skáldið? – Nei, um hann má ekki spyrja hér. – Það er óviturlegt að spyrja hver sé mestur, því verður aldrei svarað. – Emerson segir um Talleyrand, að hann hafi aldrei spurt um, hvort maðurinn væri ríkur, í hverjum stjórnmálaflokki hann væri eða hverja hæfileika hann hefði. Hann hefði aðeins spurt um: Er maðurinn nokkuð? Hvað er hans áhugamál? – Sé svo, þá hlýtur hann að vera nýtur maður. Talleyrand spurði ekki um annað, stjórnendur spyrja ekki um annað, og heilbrigð skynsemi spyr tæpast um nokkuð annað.
Allir þessir fyrrnefndu menn voru eitthvað, þeir höfðu allir stór áhugamál. En það ber á forfeðrum föður míns tvö hundruð árum fyrr en ég sé bóla á hinum, og þess vegna verður mér á að taka þá fram yfir hina. ,,Ég er kominn af Reynistaðaætt", sagði Jón Þorláksson, síðast borgarstjóri í Reykjavík.
Við þetta mætti kannski bæta við orðum sem höfð eru eftir Dostojevskí (veit ekki hvort það komi úr ræðu eða riti): ,,Ef þú vilt skyggnast inn í mannssálina og kynnast manni, skaltu ekki vera að hafa fyrir því að rannsaka hvernig hann þegir, talar, grætur eða hversu göfugar hugsjónir hreyfa við honum; þú færð betri niðurstöður ef þú fylgist bara með honum hlæja. Ef hann hlær vel, þá er hann góður maður."