Morgnar í Jenín -bókmenntaumfjöllun
Nú nýverið kom skáldsagan Morgnar í Jenín, eftir palestínsk-bandaríska rithöfundinn Susan Abulhawa, út hjá forlaginu í þýðingu Ásdísar Guðnadóttur. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera viðstaddur bókakynninguna í Þjóðemnningarhúsinu, og hlýða á fyrirlestur Susan og upplestur úr bókinni og keypti hana í kjölfarið.
Í bókinni rekur höfundur sögu palestínskrar fjölskyldu, fjögurra kynslóða og örlög fjölskyldunnar eru samfléttuð sögu palestínsku þjóðarinnar. Abulheja-fjölskyldan verður flóttamenn við stofnun Ísraelsríkis 1948 og aftur í kjölfar Sex daga stríðsins 1967. Fjölskyldan upplifir hernám Palestínu og landtökur, innrásina í Líbanon og hörmungarnar við fjöldamorðin í Sabra og Shatila flóttamannabúðunum 1982 og í Jenín 2001. Við stríðið 1967 glatar móðirin Dalia svo barni sínu, Ismael, sem ísraelskur hermaður rænir. Hann og kona hans, sem sjálf er ófær um barneignir, ganga drengnum í foreldrastað, hann elst upp sem gyðingur og kemst ekki að uppruna sínum fyrr en löngu síðar.
Sagan er að sumu leiti sjálfsævisöguleg, en höfundur er sjálf barn flóttamanna Sex daga stríðsins 1967 og ævisögulegastur er kaflinn þar sem hún lýsir munaðarleysingjahælinu, en hún bjó sjálf á slíku áður en hún fluttist til Bandaríkjanna eins og söguhetjan Amal. Höfundur lagðist einnig í ítarlega rannsóknarvinnu við samningu bókarinnar, og tiltekur heimildaskrá að sögunni lokinni.
Susan lýsir fólkinu og samfélaginu af mikilli alúð, svo persónurnar verða lifandi fyrir manni og vekja með manni samkennd. Maður skynjar ættarsvip en jafnframt hvernig persónurnar mótast af atburðunum og þær hafa sín eigin persónueinkenni. Tilfinningin fyrir rótunum, bæði sögu og landi er sterk í bókinni. Sagan er ýmist sögð í fyrstu persónu eða þriðju, og skiptir á milli sjónarhorns fjölskyldumeðlimanna og sögumanns. Sú aðferð virkar vel til að veita manni víðari sýn.
Þá er sagan af vináttu arabans Hasans Abulheja og gyðingsins Ari Perlstein, falleg, mitt í eymd og stríði og í raun ofar þeim. Fjölskylda Ari lifði af helförina en er mótuð af atburðunum, ekki síður en Abulheja fjölskyldan mótast af þeim atburðum sem yfir hana dynja.
Ari segir Hasan um árásirnar gegn aröbum 1948: “Ég meina, mér finnst þetta rangt . En þú veist ekki hvernig þetta var áður. Ari var skjálfraddaður. Það drap okkur, það sem gerðist, jafnvel þótt við flýðum. Hefurðu tekið eftir hve tóm augu móður minnar eru? Hún er dáin að innan. Faðir minn líka....”
“...þú ert mér eins og bróðir. Ég myndi gera hvað sem væri fyrir þig og fjölskyldu þína. En það sem gerðist í Evrópu...”
Arabar voru þannig látnir gjalda fyrir glæpi Evrópu gegn gyðingum.
Bókin er þrungin miklum tilfinningum og lýsir hörmungum og þjáningu. Lestur hennar getur því á stundum verið yfirþyrmandi. Hún er jafnframt mikill áfellisdómur gagnvart umheiminum og skeytingarleysi hans gagnvart palestínsku þjóðinni, sem virðist ætlað þau hlutskipti að vera að eilífu utangarðsfólk, gleymd öllum. Hún deilir einnig á hræsni fjölmiðla og stjórnmálamanna sem brengla sannleikann og svipta fólk mannlegum eiginleikum.
Þar sem Amal stendur frammi fyrir ungum ísraelskum hermanni sem miðar riffli af höfði hennar hugsar hún: “Ég finn til með honum. Ég finn til með dreng sem ber skylda til að verða morðingi. Ég er döpur vegna æskunnar sem leiðtogarnir svíkja fyrir tákn og fána og stríð og vald.”
Bókin leitast við að ljá fólki andlit og mannúð sem því hefur verið neitað um of lengi í vestrænum fjölmiðlum. Þrátt fyrir allt er sterkustu tilfinningarnar í bókinni ást, vinátta og baráttan fyrir mannúð við erfiðustu aðstæður. Fólkið á blaðsíðunum bregst við harmi á ólíkan hátt, svo sem með trú, biturð, einangrun, heift og hefndarþorsta og veruleikaflótta en einnig ást og gæsku. Það getur verið skammt öfganna á milli, tilfinningar eru náskyldar og vegurinn til reisnar og mannúðar vandrataður. Bókin spyr áleitinna spurninga eins og hvað gerir okkur í raun að því sem við erum?
“...Hvernig get ég fyrirgefið, mamma? Hvernig getur Jenín gleymt? Hvernig ber maður svona byrði? Hvernig lifir maður í heimi sem snýr bakinu svona lengi við óréttlæti? Er það þetta sem felst í því að vera Palestínumaður, mamma?”
Arabadrengurinn Ismael sem varð að gyðingnum Davíð segir við systur sína: “Ég verð aldrei sannur gyðingur eða múslími. Aldrei sannur Palestínumaður eða Ísraelsmaður. Viðurkenning þín á mér gerði mig sáttan við að vera einfadlega mannlegur. Þú skildir að þótt ég væri fær um mikla grimmd er ég líka fær um mikla ást.”
Þetta á einnig við um bróður hans, Yousef, ástríkan son, bróður, eiginmann og föður, en hans stærsti harmur er þegar hann missir fjölskyldu sína á hrottalegasta hátt í fjöldamorðunum 1982. Hann brennur af heift og harmi og þráir að taka örlögin í sínar hendur fremur en að vera, eins og þjóð hans, leiksoppur þeirra. Innri barátta hans milli heiftar og mannúðar og ákvörðunin sem hann tekur er mikil þungamiðja bókarinnar.
Vonin kristallast einnig í viðleitni eftirlifandi ættingja í að sameinast í fjölskyldu, þar má skynja ósk höfundar um að ólíkt fólk með mismunandi reynslu, þó allt mótað af atburðum svæðisins, geti lifað saman í friði og samlyndi, með réttlæti að leiðarljósi.
Susan Abulhawa á lof skilið fyrir þessa vönduðu og fallega skrifuðu fyrstu skáldsögu hennar, sem á brýnt erindi, og hygg ég að megi áfram vænta góðs af henni. En fyrst og fremst á hún skilið að bókin verði mikið lesin og erindi hennar berist sem víðast.