fimmtudagur, júní 03, 2004

Nú er forseti búinn að synja lagafrumvarpinu um eignarhald á fjölmiðlum, í fyrsta sinn í 60 ár, síðan lýðveldið var stofnað. Þetta þykja mér miklar fréttir, þó að maður sé á báðum áttum hvernig ber að taka þeim. Það fer hins vegar ekki á milli mála að við lifum á sögulegum tímum og hvernig sem fer verður spennandi að fylgjast með.


Ég finn mig hins vegar knúinn til að leiðrétta Arngrím vin minn og reyndar algengan miskilning á valdi forseta.

Forseti hefur ekki neitunarvald. Neitunarvald (veto) fellst í því að t.d. forseti/þjóðhöfðingi/ræðismaður eða e-r neiti að skrifa undir lög og þá ná þau ekki að ganga.

Forseti hefur ekki veto og hefur aldrei haft. Það er ekki svo að synji hann staðfestingar nái lög ekki fram að ganga, það geta þau gert. Hins vegar getur hann (af því er virðist) skotið málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu (sem myndi þá reyna á í fyrsta skipti hér) og þá getur þjóðin kosið með eða á móti.

Þetta er tvennt sem ekki ber að rugla saman og ég er ekki sammála Agga um að það megi nota þetta orðalag eins frjálslega og hann virðist vilja gera, með fullri virðingu fyrir frænda mínum. Þetta er einfaldlega ekki sami hluturinn og verður það ekkert fremur þó að einhverjir telji það.
Rétt eins og læmingi breitist ekki í rottu þó svo að mér finnist þau lík.

Ég játa það hins vegar að þetta er óheppilegt orðalag, því neitunarvald er þýðing á veto og hér að ofan hef ég reynt að skýra það orð. Og það vald hefur forseti aldrei haft.
Málskotsréttur finnst mér fínt orð, þá fer ekki á milli mála hvað við er átt og verður enginn vafasamur ruglingur á hugtökum sem fela ólíka merkingu og innihald í sér.

Ég óska landsmönnum friðar og velvirðingar

Einar


Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.