föstudagur, júlí 30, 2004

Þau ár þegar ég enn var ungur og saklaus að erfðasyndinni undanskilinni; þau ár þegar viðburðir lífsins miðluðu mér reynslu sem var laus við beyskju; þau ár þegar vorkunn mín með öllu kviku var ógagnrýn og einlæg; þau ár þegar Guð stóð mér fyrir hugskotssjónum sem örlátur og vingjarnlegur föðurafi, Fjandinn eins og dálítið varasamur og duttlungafullur móðurafi en undir niðri heimskur og meinlaus; þau ár þegar ljósið var í senn bæði ljós og sigursælt ljós og allt myrkur og allan ótta mátti særa burt með með einu faðirvori eða signingu; þau ár þegar ég grillti ekki kvöldið á morgnanna og sat öruggur í skjóli undir grasi grónum moldarvegg og lék mér að stráum; þau ár eru liðin og koma aldrei aftur.
Og það voru ekki árin ein sem liðu, margt af fólki þess tíma er nú ekki lengur, en sumt komið á tvist og bast, jafnvel minning þess lýsir stopulu ljósi eins og stjarna sem gægist fram annað kastið úr rofi


Þannig hljóðar upphaf fyrstu bókar Fjallkirkjunnar, Leikur að stráum eftir Gunnar Gunnarsson í þýðingu Halldórs Laxness. Bók þessa fékk ég upphaflega í fermingargjöf frá Jórunni og Arnari. En þá var ég lítill krakkaormur sem kunni ekki gott að meta eins og er algengt á þessum árum og má teljast gott að ég hafi ekki af visku minni skipt henni fyrir bland í poka.
Nú, mörgum árum seinna þegar ég er orðin eldri og þroskaðri kviknaði áhugi minn fyrir henni, og glæddist mjög við kynni mín af honum í bókmenntasögunni. Nú er ég í 2. bók af 5 sem nefnist Skip Heiðríkjunnar. Hinar eru Nótt og draumur, Óreyndur ferðalangur og Hugleikur. Ég er gjörsamlega heillaður af þessari bók enda er hún eitt af meistaraverkum norrænna nútímabókmennta. Fjallar bókin um uppvaxtarár Ugga Greipssonar frá því að hann er ungur og saklaus piltur á Austfjörðum uns hann er kominn út til Kaupmannahafnar að leita gæfunnar. Skáldið byggir söguna á eigin ævi. Bókin er einstaklega vel skrifuð og ég verða að taka undir með þýðanda; það sem sterkast er í bókinni er... hugblærinn, þetta andrúmsloft sem Gunnar skapar, dramatísk, oft hnyttin, myndræn heimspekileg og falleg. Hann hrífur mann með sér. Málið er líka svo hljómfagurt. Mitt eintak prýða svo ljómandi fagrar myndir eftir son skáldsins, Gunnar yngri listmálara.Þeim sem vilja kynna sér fremur ævi og störf Gunnars Gunnarssonar bendi ég á http://www.skriduklaustur.is/ -Gunnar skáld

mánudagur, júlí 26, 2004

Kemur á daginn að heimspressan hafði rangt fyrir sér um að Brando rambaði á barmi gjaldþrots. Hann átti feykinóg af eignum, átti til dæmis eyju einhvers staðar. Heimildin var víst komin úr einhverri ævisögu Brando, hvort hún var authorized veit ég ekki. Aldeilis að menn vinna vinnuna sína. 
Sýnir manni bara enn fremur að maður getur ekki treyst öllu sem maður les í fjölmiðlum. Bið ykkur afsökunar á þessari staðreyndarvillu.

Komið þið sæl. Ég er risinn upp sem Lasarus eður kolbítur úr öskustó.
Ég bið dygga lesendur velvirðingar á löngu bloggleysi mínu. Orsakaðist það af leti, andarteppu og önnum. Sorgaratvik sem ég kæri mig ekki um að fara út í kom einnig upp á og dró úr mér andlegan mátt til skrifa. Nú hef ég einnig verið 3 vikur erlendis og ekki heft mikinn aðgang að neti hingað til.

Til að bæta ykkur missinn þá er hér ,,þýskur” brandari úr Monty Python:

Die ist ein Kinnerhunder und zwei Mackel uber und der bitte schon ist den Wunderhaus sprechensie. 'Nein' sprecht der Herren 'Ist aufern borger mit zveitingen'.
 
Ég er hér í góðu yfirlæti á Frederiksbersvegen 40 E í Skövde í Svíþjóð hjá systur minni, Jórunni og mági mínum Arnari. Kem heim seint á Laugardag. Veðrið er búiðað verta vott, skýjað og rár himinn flesta daga en þó einstaka dagar með góðru veðri.
Þannig var það til dæmis um daginn þegar við fórum í tjaldferð til Visingsö.  Það er afar falleg eyja sem er staðsett í næststærsta vatni Svíþjóðar,Vättern og vinsæll ferðamannastaður. Tjölduðum rétt hjá róló þar sem krakkarnir (Valli og Katrín, systurbörn mín) gátu leikið sér, nálægt vatninu.
Visingsö var aðsteur fyrsta konungs allrar Svíþjóðar og út við sjó sáum það sem eftir var af kastalanum þar sem konungarnir höfðu setið Nes, sem Magnus Ladelos lét byggja á 12. öld. Fátt stóð eftir nema hluti af útveggjum, kastalinn hafði verið brenndur af óvilarmönnum konungs og seinna hefur sjórinn sorfið það sem eftir stóð.
Snorri Sturluson heimsótti þennan kastala og er hennar getið í Formannasögum. Það ku vera eina ritaða heimildin um tilvist þessa kastala. Einnig var tilkomumikið að sjá kastala Brahe-hertogaættarinnar, hann hafði einnig brunnið enn stóð þó enn að mestu, utan þakið sem vantaði. Sæú ætt réð lögum og lofum á eyjunni og hafði sterk ítök í Svíþjóð. Af þeirri ætti var t.d. stjörnufræðingurinn Tycho Brahe. Arnar tók ýmsar myndir og getur vonandi sent mér og ég þá póstað á bloggið. Fórum svo í skoðunarferð með krökkunum í hestvagn og höfðu þau gaman að. Það hafa eflaust verið 16 manns í vagninum og þetta voru tveir hestar látnir draga. Go figure.
Við vorum sumsé þarna fram á annan dag og héldum svo í átt heim. Stoppuðum í Gränna sem er heimabær hvít-og rauðröndóttu sykurstanganna og stafanna sem maður fær t.d. á jólunum, og auðvitað gert mikið út á það, allt morandi í sælgætisbúðum. Mér leið eins og... tja, barni í sælgætisbúð?
Þaðan héldum við í snoturt gamaldags þorp með fallegum gömlum byggingum sem minntu mig óneitanlega á Emil í Kattholti og fengum okkur afbragðsgott kaffi og heimalagaðar kökur á miðaldalegri krá (hún minnti mig á krána í Bróður mínum ljónshjarta). Að lokum er vert að minnast gamallar steinbrúar sem við ókum framhjá. Hún virtist ævaforn og lá í boga yfir litla á sem rann þar með vatnaliljum, umkrngd grösugum túnum og faellegum gömlum bóndabæum. Allt minnti þetta mig á Astrid Lindgren.

Daginn eftir skruppum við svo á jarðaberjaakur og tíndum e-ð 5-7 kíló. Þá var Adam kominn í paradís.

Margt fleira höfum við brallað; skruppum t.d. í bústað til vinafólks J. Og A. Sem var við vatn, einnig mjög Astrid Lindgren-legt, akkkúrat svona vatnið sem krakkarnir baða sig í á sumrin í sumarbústað, veiða  og róa út á bát. Við skruppum einmitt út á vatn í mótorbát og Valli fékk að stýra! :)
Það verður þó gaman að koma heim aftur á Laugardaginn.
Kveðja
Einar

laugardagur, júlí 03, 2004

Marlon Brando látinn

Eftirlætis leikari minn og besti leikari sem Bandaríkin hafa alið, Marlon Brando er látinn, áttræður að aldri. Hann . Það má segja að hann hafi markað nýja leikstefnu, alltént í kvikmyndum. Svokallað ,,method acting" sem byggðist á djúpri túlkun og innlifun persónanna og er uppruninn hjá rússanum Stanislavsky.

Meðal þeirra mynda sem munu halda nafni hans á lofti eru A Streetcar Named Desire, þar sem hann markaði djúp spor í kvikmyndasöguna með ógleymanlegri túlkun sinni á rustamenninu Stanley Kowalski í kvikmyndun Elia Kazaan á leikriti Tennessee Williams. Eins er með On The Waterfront sem Kazaan leikstýrði einnig, en Brando fékk óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki sem uppþornaði fyrrum hnefaleikakappi Terry Malloy, sem lendir í sálarkreppu þegar hann þarf að velja um að hylma yfir morðingjum og glæpamönnum sen hann og bróðir hans starfa fyrir eða hlýða kalli samviskunnar. Hann varð einnig fulltrúi hinnar villtu uppreisnargjörnu æsku í Wild One. Einnig var hann frábær sem Emiliano Zapata í Viva Zapata! þar sem hann lék á móti öðrum afbragðs leikara, Anthony Quinn, sem lék bróður hans. Brando leikstýrði líka sjálfur vestranum One Eyed Jacks. Enn vakti hann athygli í hinni opinskáu Last Tango In Paris eftir Bernando Bertolucci. En þó er hann eflaust frægastur fyrir leik sinn í Guðföðurnum, er hann lék sjálfan Vito Corleone.

Marlon Brando var baráttumaður allt sitt líf og gaf lítið fyrir gróðamaskínu Hollywood og glyslífið. Hann lét sig málefni minnihlutahópa og kúgaðra varða, sérlega indíána, en hann neitaði að taka í eigin persónu við óskarnum fyrir Guðföðurinn í mótmælaskyni við meðferð Bandarískra yfirvalda á frumbyggjum og hvernig þeir voru sýndir í kvikmyndum.

Brando átti ekki sjö dagana sæla síðustu árin. Auk óholls lífernis var hann orðin stórskuldugur og lífsþreyttur. Sonur hans afplánar dóm fyrir morð á unnusta hálfsystur hennar.

Nú hefur hann vonandi fengið ró.
Hvíl í friði.

Ég held að fegurstu eftirmælin sem hann gæti fengið sé þessi tilvitnun í hann sjálfan:

To me, fair friend, you never can be old. For as you were when first your eye I eyed. Such seems your beauty still.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Hugleiðing um málefni Íraks


Í gær hlustaði ég á fréttaflutning ríkissjónvarpsins. Fjallað var um mál Saddams Hussein. Var talað um að nú ætti að framselja hann til dómstóls bráðabirgðastjórnarinnar í Írak. Lofað væri að hann fengi sanngjörn réttarhöld. Síðan voru talin upp ódæði hans.
Hvergi minnst á ódæði Bandaríkjastjórnar. Reyndar var fréttin sett upp þannig að halda mætti að verið væri að réttlæta gjörðir hennar.
Svo sem ekkert nýtt af nálinni, þetta er sá áróður sem Bandaríkjastjórn hefur ávallt beitt. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað. Saddam er vondur, þess vegna skiptir svíðingsskapur Bandaríkjastjórnar engu máli. Þeir eru hinir hvítþvegnu krossriddarar gegn hryðjuverkum, leiðtogar hins frjálsa heims; komnir til að leiða villuráfandi sauðina til ljóssins.
Komi eitthvað babb í bátinn mun sagan fyrirgefa þeim.
Ekki misskilja mig, Saddam Hussein hefur skelfilega hluti á samviskunni. En ef við viljum draga menn fyrir dóm ættu engir málsaðilar að vera dregnir undan, það ætti ekki að hylma yfir með neinum. Í sanngjörnum réttarhöldum væru CIA og bandarísk yfirvöld látin svara til saka fyrir að útvega Saddam og Baath-flokknum eiturgas og efnavopn. Til hvers? Til að hafa sem garðskraut? Aldeilis ekki. Til að beita þeim gegn Írönum og þáverandi illmenni, Ayatollah Khomeni. Seinna skerst í odda með Bandaríkjastjórn og Íraksstjórn og þá verður Saddam vondi kallinn. Rétt eins og Stalín, bin Laden, Khomeini og Castro og fleiri á undan.
Við þurfum alltaf að hafa einhvern óvin. Ef hann fyrirfinnst ekki, búum við hann til.
Auk þess eru þeir fyrirtaks blórabögglar.
Bandaríkjastjórn þyrfti að svara til saka fyrir ólögmætt stríð, háð í skjóli lyga og blekkinga. Gereyðingarvopn sem fundust aldrei. Meint tengsl Saddams við Al-Qaida sem hafa heldur aldrei sannast.
Bandaríkjastjórn þyrfti þá einnig að svara til saka fyrir margítrekuð brot á Genfarsáttmála um meðferð stríðsfanga. Það var ekki fyrr en seint og um síðir að hin allra mildasta ríkistjórn hins frjálsa heims lýsti Saddam Hussein stríðsfanga. Það var eftir að þeir sýndu myndir af honum þar sem hann er dreginn upp úr holu og myndir þar sem rifið er upp á honum ginið og þar sem hann er aflúsaður eins og rakki
Ekki einungis er þetta óviðeigandi og siðlaust heldur brýtur það á réttindum stríðsfanga samkvæmt Genfarsáttmála að niðurlægja hann, . Samt birtist ekki sú frétt um Saddam að þessar myndir séu ekki enn notaðar.
Í réttarríkjum er miðað við að sé maður tekinn fastur eigi hann rétt á að vera ákærður og umsvifalaust sé réttað í máli hans. Máli Saddams hefur hins vegar verið skotið á frest býsna lengi

Væri Bandarískum stjórnvöldum raunverulega umhugað um að Saddam Hussein fengi sanngjörn réttarhöld hefðu þeir ekki tvínónað við að draga hann fyrir alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn. Í stað þess framselja þeir hann dómstól með vægast sagt vafasama lögsögu og lög að baki sér. Hann er seldur í hendur óvina sinna og það hlakkar í þeim við tilhugsunina um höfuð hans á stjaka.


Loks þyrfti Bandaríkjastjórn að svara til saka vegna atburðanna í Abu Ghraib-fangelsinu. Heimsbyggðin hryllti sig af viðbjóði þegar myndirnar þaðan birtust. Það er þó ekki einsdæmi, né verk nokkurra ruglaðra fangavarða. Það er fyrir löngu sýnt og sannað. Skýrsla Amnesty sýnir að þetta hefur viðgengist lengi, enn fremur hafa játningar málsaðila staðfest þetta. Þetta eru í raun „hefðbundin vinnubrögð“
Samanbergrein Uri Avnery „Busharon: „Niðurtalningin“, sem Morgunblaðið birti á miðopnu 29. maí sl. Enginn virðist þurfa að súpa seyðið af þessu. Allir þvo hendur sínar. „Við vissum ekki“, „þetta voru mistök“, „...fylgdum fyrirmælum“. Eða; „Gott og vel, við erum sekir en komumst upp með það“. Rumsfeld, sem auðvitað er sekur, verður blóraböggull allrar stjórnarinnar, en hinir sleppa. Hann tekur á sig syndir þeirra án þess að þurfa að sæta viðurlögunum og heldur embætti.
Í Nürnbergréttarhöldunum var staðfest að ódæðismenn gætu ekki firrt sig ábyrgð með því að segjast einungis hafa hlýtt fyrirmælum.
Ef rétta á yfir Saddam Hussein skulu allir sekir vera dregnir fyrir lögmætan dómstól og látnir svara til saka fyrir gjörðir sínar.



Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.