sunnudagur, janúar 29, 2006

Af kosningasigri Hamas og friðarhorfum

Hamas hefur sigrað í palestínsku kosningunum og mun mynda ríkssstjórn. Ég bendi á góða grein eftir Uri Avnery á heimasíðu Gush Shalom sem hann skrifaði fyrir um það bil viku,Pity The Orphan. Í henni fjallar hann um mótmælagöngu í Bi’lin, þar sem friðarsinnar og fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna, þar á meðal Hamas, marséruðu hlið við hlið til að mótmæla múrnum. Avnery sér þetta sem merki þess að Hamas geti tekið þátt í friðarumræðum og að það sé mögulegt að fá þá til að samþykkja friðarsáttmála.
Fréttaflutningur, viðbrögð ísraelskra ráðamanna og vestrænna stjórmálamanna er á sömu línuna. Mogginn notar gömlu þvældu tugguna um “harðlínumenn”, “öfgafulla múslima”. Orð sem eru útþynnt af ofnotkun, en þjóna þeim tilgangi að vera Grýla. Einnig er minnst á hryðjuverk Hamas.

Það gerir George Bush líka og heldur því fram að Bandaríkjastjórn muni ekki ræða við þá sem “hvetja til ofbeldis”. Ég held að stríðsæsingamönnum væri réttast að fara varlega í slíkar yfirlýsingar um aðra. Hér getur hann auk ekki „barist gegn hryðjuverkum“ ef hann vill líka halda á lofti merkjum „lýðræðis í Mið-Austurlöndum“. Sumsé, hafi einhvern skort frekari sannanir fyrir hræsni Bush, þarf hann ekki að leita lengra.

Vopnaður armur Hamas hefur sannarlega barist af mikilli heift og hefur líf margar saklausra Ísraela á samviskunni. Það sama má segja um Ísraelsher. Það er hins vegar nokkuð ljóst að ekki eru notuð sömu orð þegar þeir síðarnefndu eiga í hlut. Með þessum fyrirslætti hafa ísraelsk stjórnvöld einnig reynt að gera Hamas erfitt fyrir í kosningbaráttu þeirra og ýmsir Ísraelar hafa lýst andstöðu sinni við að “hryðjuverkasamtök” fái að taka þátt í kosningunum. Maður hlýtur að spyrja sig hversu lýðræðislegar kosningar það hefðu verið ef einum flokknum, sem hefur meirihluta fylgi, væri meinað að taka þátt.

Ísraelskir ráðamenn hafa löngum verið með fyrirslátt til að forðast friðarviðræður. Eins og Avnery bendir á í skrifum sínum, þá hafnaði Sharon viðræðum við Fatah, undir því yfirskyni að Abbas gæti ekki “tekist á við hryðjuverkaógnina”, um leið Sharon gróf sífellt undan Abbas, undi honum hvergi pólítisks ávinnings og stóð sjálfur fastur við útþenslustefnu sína. Sharon kvartaði svo yfir að “ekki væri hægt að ræða við neinn”. Sömu aðferð var beitt við PLO, þau voru líka flokkuð sem hryðjuverkasamtök.
Á sínum tíma leit svo Ísraelsstjórn á Hamas sem gott mótvægi við PLO, þáverandi „hryðjuverkasamtök“ og leit svo á að hægt væri að nýta sér Hamas til að beita þeim gegn PLO.

Hamas má helst þakka fylgi sitt því að þeir eru lausir við þá spillingu sem einkennir Fatah. Sökum árangursleysis Abbas, (þar sem Sharon á ekki lítinn þátt í máli), þykir Palestínumönnum einnig Fatah veik, að hún “sitji í Fílabeinsturninum” og horfi á, en hirði ekki um alþýðuna. Það virðist vera að Fatah hafi tapað tengslum við fólkið, í kjölfar ósigra. Hamas hafa fremur komið út í huga Palestínumanna sem fólkið sem gerir eitthvað, kannski að sumu leiti ekki ósvipað því hvað dró fólk að Sharon, að hann væri “sterkur og óbugandi leiðtogi” sem kvikaði ekki frá stefnu sinni.

Það er alvarlegt ef Ísraelsstjórn ætlar ekki að ræða við Hamas, nú þegar Hamas eru komin í stjórn. Það er líka alvarlegt ef þeir vilja ekki verða við kröfunni um að láta hina herteknu A-Jerúsalem af hendi, og að landtökubyggðir verði áfram á Vesturbakkanum. Olmert segist ætla að leggja einhverjar landtökubyggðir niður, en aðrar verða áfram og munu eflaust stækka, á kostnað lands Palestínumanna.
Það er hins vegar ekki síður alvarlegt ef Hamas ætlar sér ekki að ræða við Ísraela, og ef þeir halda áfram að afneita tilverurétti Ísraels. Ekki það að megi ekki færa góð rök fyrir því að leggja Ísraelsríki niður í núverandi mynd, sem var reist á landi Palestínumanna. Ákjósanlegast væri e.t.v. að Ísraelsmenn og Palestínumenn gætu lifað saman í einu ríki, jafn rétttháir. Með því að taka þátt í lýðræðislegum kosningum, byggðum á samþykkt sem náðist milli Palestínumanna og Ísraelsmanna með Oslóarsamkomulaginu, má hvort eð er færa rök fyrir að með því viðurkenni Hamas um leið tilvist Ísraels.
Ég tel að það sé góðs viti að Hamas hefji samstarf við Fatah. Abbas vill stjórna ferðinni í samningaviðræðum við Ísralsmenn. Þetta virðist fremur benda til að möguleiki sé fyrir hendi að Palestínsk yfirvöld verði tilbúin að setjast að samningaborðum. Mér virðist líka að í fjölmiðlum sé lítt litið á þær kröfur Hamas að Plaestínumenn endurheimti land sitt og fái að stofna sjálfstætt Palestínuríki með A-Jesrúsalem sem höfuðborg,altént í blöðunum. Verður þá RÚV að fá prik hjá mér fyrir að nefna þetta á vefnum.
Ljóst er að friðarviðræður verða flóknar, enda mismunandi sjónarmið sem þar munu mætast. Ekki er til dæmis að sjá að Olmert hafi tekið til greina rétt flóttamanna til að snúa aftur til heimkynna sinna. Því síður veit ég hvernig Hamas hefur hugsað sér það, eða hvort þeir myndu kyngja þeim bita að fá úthlutað landi miðað við Grænu línuna, til að stofna ríki Palestínumanna, eins og Olmert kveðst vilja. Það myndi þýða að Palestínumenn héldu eftir um 20% af upprunalegu landi sínu. Auk skoðana Hamas-liða vilja þeir að öllum líkindum ekki bregðast kjósendum sínum. En fyrst og fremst hljóta bæði Ísraelar og Palestínumenn að vilja frið, eftir stríð sem hefur varað í fimm kynslóðir, þó vandi geti verið að finna lausn sem báðir geta sætt sig við.
Það er skiljanlegt að Hamas leggi ekki niður vopn á meðan blóðugt hernám Ísarela heldur áfram. Þær hörmungar sem á báðum þjóðum hafa dunið má allar rekja til hernámsins og sívaxandi og fjöldgandi landtökubyggða. Hamas mun ekki hætta sínum árásum á meðan Ísraelsher heldur uppteknum hætti.
Slík einhliða skilyrði eru fáránleg sem „forsendur“ þess að friðarumræður geti farið fram, það er fyrirsláttur, til að hindra að friðarumræður geti átt sér stað. Vandamálið er hernámið sjálft.
Ef Ísraelar ætla að setja fram þessar kröfur til Palestínumanna, þá verða þeir að uppfylla kröfuna um að hernáminu ljúki. Nú ríður mest á að báðir aðilar verði tilbúnir að setjast að samningaborði og leitist við að finna friðsamlega lausn sem báðir geta sætt sig við. Báðir munu þurfa að slaka á og koma til móts við sjónarhorn hins. Ræðist þeir ekki við, verður enginn friður. En ljúki hernáminu ekki, verður í besta falli skammtíma vopnahlé, áður en næsta intifada brýst út.

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Ferðasaga úr Skálholti
- Bandcamp

Á föstudegi lögðum við Kristján af stað um sjö leitið áleiðis í Skálholt. Þótti mér ekki amalegt að hafa viðtalsþátt við tvo Utangarðsmenn í græjunum á leiðinni og tónlist af Geislavirkum. Góð plata það. Við komum eitthvað um 9-19 leitið, að mig minnir og deildum herbergi með Magnusi og Stefaan. Við æfðum eitthvað og fórum í leiki. Man að við fórum í blindingjaleik og hlupum í skarðið. Svo var chillað, drukkið og skemmt sér.
Það var mikið um söng, spil og leiki, 5 gítararar (þar á meðal minn) og það hefur víst verið spilað á þá alla.
Það var mikil jörfagleði alla ferðina. Ég held að það hafi verið einhver besta hugmyndin sem ég fékk á liðnu ári (OK, mótiveraður af mömmu) að fara í kórinn, enda eru kórfélagar mínir afskaplega skemmtilegt fólk. :)
Þetta kvöld held ég að ég hafi smakkað Old Speckled Hen í fyrsta sinn. Góður drykkur það.
Daginn eftir var sjö tíma æfing með pásum. Strax og henni lauk var ölið dregið fram. Við snæddum afar ljúffenga hamborgara um kvöldið. Svo voru skemmtuiaðtriði og leikir, sungum hástöfum við matarborðið. Það var busavígsla, og var ég þar í hóp. Við vorum látin hakka í okkur kókosbollur, þamba öl, hoppa í hringi á heinum fæti, drekka Gammeldansk (sem er NB argasti viðbjóður), skríða undir og hlaupa í gegn um marklínu gjörða úr salernispappír. Næst á dagskrá voru svo skemmtiatriði hverrar raddar, sem við fengum e-ð tuttugu mínútur til að undirbúa. Við bassarnir vorum þurrausnir. Eftir að hafqa brotið lengi helinann, brugðum við á endanum á það ráð að láta Jón keppa í súmóglímu við fulltrúa annara radda. Var hann sigursæll, nema að Sara sigraði hann í altinni. Svo stigum við dans eins og vanvitar.
Kristín átti afmæli og við fögnuðum því með pompi og prakt. Síðla kvölds, eftir mikið partý og e-ð 8-10 bj´9ora var gott að koma sér fyrir í heita pottinum. Við slógum raunar met, tróum okkur seytján í pottinn, þegar mest var, en hann hefur verið hugsaður fyrir fjóra, held ég. Allir liggjandi ofaná og ofaní öllum. Ég hef verið þriðji eða fjórði síðasti maðurinn að fara að sofa aðfaranótt Sunnudags. Þegar maður var orðinn hæfilega djúpraddaður af öli kyrjaði maður lög eins og „Á sjó“, enda ekki oft sem maður fær tækifæri til þess að gjöra svo vel sé.

Á Sunnudag héldum við heim. Við Kristján tókum dálítinn bíltur og keyrðum Hveradal og Árborg. Útsýnið var fallegt, land og fjöll snævi þakin, og mættust þar hvítur og svartur á heillandi hátt. Mér varð hugsað til Aðventu. Himinninn var líka fagur, sólgyllt ský og sólstafir, skýin mynduðu nokkurs konar boga eða op og hátt uppi var mislit, eins og vísir að regnboga.
Bíllinn reyndist hins vegar orðinn bölvað skran, þar eð hraðinn féll á honum eða hélst með eindæmum lágur. Á leið upp Kambana snigluðumst við á 20km hraða og var hraðinn líka jafnan svona á jafnsléttu. Það var helst á leið niður brekku að hann hækkaði. Þegar hann var sem hægastur hefði maður ætlað að maður gæti gengið hraðar. Við mjökumst Mosfellsheiðina og veltum því fyrir okkur, þar sem klukkan er fimmm, hvort við verðum komnir í bæ fyrir 8. Loks fór hagur Strympu að vænkast og hraðinn skríður upp, þó það hafi verið vesen með hann, nær alla leiðina heim.
Áhugasamir geta skoðað myndir úr ferðinni "Hér".

sunnudagur, janúar 22, 2006

Ég er kominn heim. Ferðin var frábær. Blogga kannski eitthvað meira um það á morgun. Nú er það heimavinna áður en ég fer í háttinn.

Lag dagsins: „Birta Birta“ með Megasi, af plötunni Í góðri trú.

föstudagur, janúar 20, 2006

"Olíuverð hækkar vegna Bin Ladens". Þarf þá nokkur frekari vitnanna við? Spyr sá sem ekki veit.

Yfir helgina verð ég með kórfélögum mínum í æfingabúðum í Skálholti, hvar verður jörfagleði mikil.
Við erum að æfa tónverkið Requiem eftir Fauré. Hér. má nálgast verkið í heild sinni. Mjög tilkomumikið verk, og gaman að syngja það. Agnus Dei er í sérlegu uppáhaldi hjá undirrituðum.
Góða helgi.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Fyrir skömmu gerðist ég félagi í Íslandsdeild Amnesty International. Setti hlekk á heimasíðu þeirra hægra megin á síðunni.

Misjöfn eru morgunverkin. Ég vaknaði einhvern tíma um 11-12 leitið og rumdi í svefnrofunum sem móðir mín og bróðir vildu reka mig á lappir. móðir mín fór svo út og stuttu seinna hringdi vekjaraklukkan. Ég slekk á henni og legst aftur í bælið, til að “hvíla mig” aaaðeins lengur. Ekki löngu síðar hringir síminn, ég læt hann hringja dálítið uns ég svara. Það er þá mamma, minnir mig á að fara á fætur og að ég hafði lofað að moka heimreiðina. Þegar á fætur var komið blaðaði ég í hinu og þessu og gerði þetta venjulega, sturta, föt, kaffi og appelsína. Svo fór ég út að moka. Það var gott að nú var hláka, í stað frostins sem verið hafði. Ég hugsa þó að sorphirðirinn sem kom hér í dag hefði þegið það að ég hefði verið búinn að moka þegar hann kom, en það var áður en ég var klæddur.
Sem ég er að moka, og gengur ágætlega, brýt ég líka ís með skóflublaðinu. Fer þá ekki betur en svo að skóflublaðið fýkur frá skaftinu og hafði tréð brotnað. Þá eru góð ráð dýr. Það er aðeins ein önnur skófla, og er fremur lítil, fremur stunguskófla. En allt er hey í harðindum, og tek ég nú til við að bogra yfir þessu, því skaftið er einnig lítið á skóflunni. Ýmist beygi mig eða krýp yfir þessu þar til það er búið, hugsandi gremjulega hve hraðar þetta hefði gengið ef skaftið hefði ekki brotnað á hinni skóflunni. Hamaðist og djöflaðist þá þeim mun meira. Því dagsverki er nú lokið og gekk furðu fljótt. Undirritaður er hins vegar dálítið aumur í baki eftir.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Lag dagsins: „Once In A Lifetime“ með Talking Heads.

Af Þjórsárverum og farsælum lyktum Borgarstjórnarfundar

Í dag samþykkti Borgarstjórn, sem er 45% eigandi Landsvirkjunnar, samþykkti tillögu Ólafs F. Magnússonar, fulltrúa Frjálslynda flokksins, um að fallið yrði frá virkjunaframkvæmdum við Þjórsárver og frá Norðlingaölduveitu. Enn fremur samþykkti hún viðbótartillögu boragrstjóra um að Landsvrikjun leitaði annara virkjunarleiða eins og gufuaflsvirkjanna. Ég sat á áhorfendapöllunum og voru þeir troðfullir. Áhorfendur gerðu mikið lófatak við ræður borgarstjórnarmeðlima, enda ánægjulegt var mikill einhugur í þessu máli, alltént hjá þeim sem tóku til máls, og mæltist þeim almennt vel. Var tillagan samþykkt með níu atkvæðum, sex sjálfstæðismenn sátu hjá. Gísli Marteinn lýsti bókun Sjálfstæðisflokksins, voru flokksfélagar í flestu samþykkir þessari ályktun en voru ekki andsnúnir stóriðju sem slíkri.
Áðurnefnd samþykkt borgarinnar er í takt við vilja heimamanna, auk þess sem fjölmennir fundir, vel sóttir stórtónleikar og umræðan í þjóðfélaginu bendir til sívaxandi vitundar um mikilvægi náttúruverndar.

Borgin hefur kosið að hlusta á fólkið, og er það vel. Enn á eftir að sjá hvernig mál fara hjá Alþingi og fyrir dómstólum, auk þess að sjá hvað ríkisstjórn gerir. Þó fullur sigur sé ekki vís er ástæða til að fagna þessum áfanga sem vannst í dag.

laugardagur, janúar 14, 2006

Lag dagsins: „Harvester of Sorrow“ með Metallicu, af plötunni ...And Justice For All.

Mæli líka með að fólk tékki á version hins fyrrverandi sellókvartetts og núverandi tríói Apocalyptica. Hún er mjög flott.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Af stefnu DV og afleiðingum hennar
Það eru sorglegar fréttir sem maður heyrir, um manninn sem DV var með forsíðufrétt um, að hann væri meintur nauðgari. Sem kunnugt er, svipti maðurinn sig lífi og sagði í bréfinu sem hann skildi eftir að hann gæti ekki staðið undir þessari atlögu fjölmiðla.
Ég veit ekki hvort ég sé tilbúinn til að kenna DV um dauða þessa manns, eða hvort ég myndi yfirleitt treysta mér til slíks. Ef svo væri, hugsa ég að það yrði það líklega í hæsta lagi óbeint eða af gáleysi.

DV hefur hins vegar marg oft gerst sekt um að dæma menn án forsendna. Í þessu tilviki sem öðrum höfðu ekki þær upplýsingar til að geta sagt til um hvort hann var sekur eða saklaus. Með því að birta frétt með mynd um "meintan nauðgara" er maðurinn berskjaldaður fyrir alþjóð. Hann fær á sig stimpil DV og í huga margs fólks sem alla vega "mögulegur nauðgari", áður en neitt hefur verið réttað í máli hans. Þegar maður er svona brennimerktur, er mannorð hans þegar svert.
Almenningur treystir ekki manni sem "gæti verið" nauðgari, jafnvel þó hann yrði fundinn saklaus undir lögum. Hann hefur fengið á sig stimpil.

Hér skiptir í raun ekki máli hvort maðurinn reynist seinna saklaus eða ekki. Það breytir engu um hlut DV. Þeir eru jafn sekir um að mynda sér skoðun án haldbærra sannana, og flagga henni fyrir almenning.

Ég hvet fólk til að taka þátt í áskorun til DV að þeir endurskoði ritstjórnarstefnu sína. Þeir sem vilja gera það geta skráð sig á www.deiglan.is/askorun

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Nú er ég að lesa Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson. Hef mjög gaman að þeirri bók. Í einum kaflanum segir Þórbergur frá ungum manni sem hann vingaðist við sem hét Tryggvi Sveinbjarnarson, og kallaði sig Svörfuð. Í bráðskemmtilegu samtali þeirra segir Tryggvi frá lánleysi sínu í ást til stúlku, er nefnist Hulda, og er dóttir skólastjórans á Akureyri. Þá spyr Þórbergur hvort þetta sé fyrsta stúlkan sem hann elski. Tryggvi segist þá hafa verið ástfanginn af annari og muni eflaust ávallt elska hana og verða óhamingjusamur alla ævi hennar vegna. Þetta lánleysi hans hefur aðallega stafað af kjarkleysi, svo aldrei varð neitt úr neinu. Hann segir að hún heiti Katrín Norðmann.
Katrín Norðmann, sem seinna varð Viðar, var langamma mín. Hún var fædd 1895 og hefur þarna verið sautján ára gömul. Hún lifði þar til ég var á fimmta ári. Ég á enn dálitlar minningar um hana. Ljósmyndir af henni vitna um að hún var sannarlega afar falleg ung kona. Ég gríp niður í samtalinu þar sem talið berst að þessu:

Er Hulda þá fyrsta stúlkan, sem þér finnst þú hafa elskað?
Nei. Og þetta er í raun og veru bara gert út af örvæntingu.
Hvað segirðu? Hefur þá einhver svikið þig?
Nei. En ég elskaði aðra stúlku, sem ég get aldrei gleymt. Og ég er viss um að ég elska hana
meðan ég lifi. Ég verð líklega óhamingjusamur alla mína ævi hennar vegna.
Jæja! Það erþá rétt með þig sem mig. Og er hún dáin?
Já, hún er dáin
Úr hverju dó hún?
Hún dó ekki líkamlegum dauða.
Varð hún uppnumin?
Nei. En ég elskaði aðra stúlku, sem ég get aldrei gleymt. Og ég er viss um að ég elska hana
Nei.
Hún hefur kannski orðið brjáluð?
Nei, hún getur aldrei orðið brjáluð.
Fyrirfór hún sér?
Nei, hún fyrirfer sér aldrei.
Þá hefur hún orðið bráðkvödd?
Nei. Hún dó frá mér, en ég get aldrei dáið frá henni.
Nú skil ég! Þú átt við að hún hafi farið burt frá þér.
Já. Hún fór í burtu.
Og kemur aldrei aftur?
Nei. Kemur aldrei aftur. Sumt fólk kemur aldrei aftur.
Hvíslandi: Hvað heitir hún?
Þú mátt engum segja það. Hún heitir Katrín Norðmann.
Afarlagleg stúlka. Ég sá hana einhvern tíma á rúntinum í vor, og þá var mér sagt að þessi stúlka héti Katrín Norðmann. Mér fannst mér þykja minna vænt um stúlku, sem ég elska, það sem eftir var kvöldsins.
Það er fallegasta stúlka í heimi.
Elskaði hún þig?
Aldrei hafði hún orð á því. Hún sagði aldrei neitt.
Fékkstu að kyssa hana?
Nei, aldrei svo mikið sem taka utan um hana?
Baðstu hana aldrei að kyssa þig?
Nei, það þorði ég aldrei. Það var nú djöfullinn, sem gerði ástina ennþá villtari og ódauðlegri.
Heldurðu þá að ástin minnki við að kyssa þær?
Já. Sú ást brennur heitast, sem adrei kyssir, segir Shakespeare einhvers staðar.
Fannst þér þú nú elska hana reglulega mikið?
Hvað meinarðu með „reglulega mikið“?
Hvort þú hefðir til dæmis viljað ganga út í opinn dauðann fyrir hana.
Ég hefði ekki getað hugsað mér meiri sælu en að vera krossfestur hennar vegna með höfuðið niður.
Mikið helvíti er að heyra þetta. Segirðu þetta satt?
Ég get ekki sannara orð talað. Hugsaðu þér! Ég elskaði hana svo óskaplega, að hver hlutur, sem hún snerti, var mér ímynd hennar sjálfrar. Ég læddist á kvöldin heim að húsinu sem hún átti heima í hér á Akureyri, bara til að þreifa á hurðarhúninum, sem hún hafði tekið á um daginn. Og svo kyssti ég húninn og sagði: Góða nótt! – Einu sinni fékk ég hana til að spila fyrir mig á píanó „Sat hjá læknum sveinninn ungi“. Herbergisglugginn hennar stóð opinn, og ég stóð berhöfðaður á götunni fyrir utan gluggann, meðan hún spilaði lagið.
Svona óskaplega finnst mér ég aldrei hafa elskað. Og samt fékkstu ást þína aldrei endurgoldna?
Jú, einu sinni. Aðeins einu sinni.
Og þó fékkst ualdrei að kyssa hana. Hvað fékkstu þá?
Það var svoleiðis, að við vorum saman ritt kvöld í glaða-tunglsljósi á skautum utan við Oddeyrina. Þá duttum við allt í eunu bæði og runnum barm við barm niður dálitla brekku, þannig, að andlitin á okkur sneru saman og ég sá beint inn í þessi hyldjúpu, bláu augu, sem tindruðu móti tunglsljósinu, Það var sælasta stund sem ég hef lifað, og ég bað þess með tárin í augunum, meðan við runnum niður brekkuna, að svona mætti allt líf okkar verða.
Og var þetta þá allt og sumt?
Já mér hlotnaðist aldrei neitt meira. En í þessum fáu augnablikum var samanþjöppuð meiri sæla en í öllum öðrum augnablikum ævi minnar samanlögðum. Á þessu broti úr sekúndu, fékk ást mín svo djúpa fullnægingu, að ég kyssti ekki hurðarhúninn nokkra daga á eftir.
Þetta er sú mesta ást, sem ég hef nokkurn tíma heyrt getið um. Og er þetta allt búið milli ykkar nú?
Allt búið! Nei, það er langt frá að það sé allt búið. Það verður adrei búið. Nú er hún flutt til Reyjavíkur,
Hefurðu aldrei hitt hana þar?
Jú, einu sinni.
Reyndirðu þá ekkert til við hana?
Nei. Það var á aðfangadagskvöld í vetur. Þá rölti ég niður á Kirkjustræti 4, þar sem hún býr með móður sinni og systkinum. Það var í norðanroki og nístandi kulda, og ég var bæði frakkalaus og vettlingalaus. Uppi á loftinu, þar sem hún á heima, var allt uppljómað með jólaljósum. Heima hjá mér voru engin jólaljós. Þegar ég var búinn að standa dálitla stund á götunni fyrir utan húsið, sá ég henni fyrst bregða fyrir innan við gluggann. Hvað heldurðu að ég hafi gert þá?
Þú hefur þó ekki farið að syngja „Í Betlehem er barn oss fætt“ þarna á götunni fyrir utan gluggann?
Ég þreif ísdröngul, sem hékk utan á húsinu, og kastaði honum upp í gluggann til þess að láta hana vita, að ég væri fyrir utan og ætlaði að halda jólin mín í kvöld þarna á götunni hjá húsinu hennar. Ég var alsæll af því að vera svona nálægt henni. Ég fann draumljúfa strauma þjóta um mig allann, þegar ég strauk nöktum lófanum um ískalt bárujárnið utan á húsinu, sem skýldi líkama hennar fyrir norðanbálinu. Og þarna hélt ég þetta aðfangadagskvöld ævi minnar hátíðlegt langt fram á jólanóttina og mændi ýmist uppí gluggana eða strauk utan húsið, frakkalaus, vettlingalaus, í norðanstormi og grimmmdargaddi.
Varð þér ekki kalt, elsku vinur? Varstu ekki hræddur við að þú fengir lungnabólgu?
Nei, góði! Ég gann ekki til minnsta kulda fyrr en á heimleiðinni., þegar húsin í Bröttugötu skyggðu á jólaljósin frá gluggunum hennar.
Ég sat og hlustaði vita-orðlaus. Hann er vitlaus, hann er brjálaður, hann er syngjandi spinngal, tautaði ég við sjálfan mig um leið og ég horfði rannsakandi meðaumkunaraugum á þennan krosspínda velgjörðarmann minn. Og þetta kallar hann að hafa hitt hana einu sinni!

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Náttúruvernd, fundur og stórtónleikar

Á laugardaginn fór ég á fund um verndun Þjórsárvera í Norræna húsinu. Var þar mælt gegn virkjanaframkvæmdum á svæðinu og hvatt til að friðlandið yrði stækkað. Salurinn tekur e-ð hundrað manns en fullt var fram úr dyrum, það hafa verið –ð tvöhundruð þarna, kannski fleiri. Fundurinn fór vel fram og var góður samstöðuandi. Ályktun fundarins var send öllum fjölmiðlum.

Um kvöldið fór ég svo á tónleikana Ertu að verða náttúrulaus? í Norræna húsinu. Það voru þrælmagnaðir tónleikar. Þar mættu 5500 manns. Annað eins lineup hefur ekki sést á Íslandi, og allir tónlistarmennirnir gáfu vinnu sína til íslenskrar náttúruverndar. Þar sá ég KK, Mugison, HAM, Ego, Rass, Sigur Rós, Björk, Möggu Stínu, Damien Rice, Ghostigital, Hjálma. Einnig komu fram Múm, Zeena Parkins, Lisa Hannigan, Damon Albarn, Sigtryggur Baldursson, Magnús Pálsson, Roni Horn, Rúrí, Tjörvi Jónsson, Andri Snær Magnason, Gjörningaklúbburinn, Kristín Eiríksdóttir, Ingibjörg Magnadóttir og Ósk Vilhjálmsdóttir.
Skjáir vörpuðu bæði myndum af tónlistarmönnum, en einnig svipmyndum af íslenskri náttúru sem nú er ógnað af stóriðjustefnu stjórnvalda, aðstæður skýrðar, ummæli meðlima ríkisstjórnar og Landsvirkjinnar birt og framtíðarsýn Íslands, nái áform þeirra fram að ganga.

Frammi var varningur seldur til stuðnings málstaðnum, mótmælaskilti og borðar hangandi, bæklingar og blöð gefins og fólki gafst færi að skrá sig í nátúrverndarsamtök eða á póstlista. Það gladdi mig einnig að slagorð mitt af mótmælaskilti, með áletruninni Damnation er nú komið á boli, sem seldir voru þar inni. Þeir seldust vel. Konuna sem hannað hafði bolina hafði ég hitt á mótmælum við Ráðhúsið, henni hafði litist vel á slagorðið og langaði að nota það. Ég tók ekkert illa í það og gaf henni númerið mitt og nafn, sem hún ritaði í lófann. Það máðist hins vegar út og hún hafði ekkert getað náð í mig. En nú er þetta komið á boli, hún veitti mér þrjá boli í þakklætisskyni og ég horfi á þúsund blóm blómstra. :)

Þegar við mamma og Vésteinn komum var KK að spila. Náði honum þar sem hann tók Wake Me. Tók svo eitthvað tvö-þrjú í viðbót að mig minnir, en man ekki alveg hver þau voru. Ég var alsæll með framistöðu hans, svo mikið sem ég sá. Næst var Björk. Fyrsta lagið sem hún flutti var Vökuró eftir ömmu mína, Jórunni Viðar, sem birtist á Medúllu, nú við undirleik hörpu. Fórst henni það vel úr hendi. Þriðja lagið hennar, sem ég veit því miður ekki hvað heitir, var sérlega flott hjá henni.
Sigur Rós voru góðir, en fluttu þó því miður aðeins eitt lag. Hefði viljað heyra meira. Ég var líka oft fyrir utan að spjalla við fólk og náði í Mugison þar sem hann flutti Murr Murr. Mikið andskoti var það flott, einhvern vegin var ekki laust við að hann minnti mig eilítið á Jack White, hvað villtan blúsrokk gítarleik áhrærði, og kannski smá í klæðaburði. En er þá ekki leiðum að líkjast. Þó hans sé góður á plötu finnst mér hann bestur live. Hann tók líka nokkur lög með Hjálmum, sem tóku svo við. Hjálmar voru líka góðir, ef eitthvað er finnst mér söngurinn upp og ofan, og misgóðir textar. Það var eitthvað lag sem byrjaði með sérlega flottu orgeli, sem mér líkaði best. Engan ljóð gat ég fundið á spilamennskunni, allt eins og ég vildi hafa það. Ég rétt sá Möggu Stínu, hún var god nok. Damien Rice þótti mér fínn. Ghostigital líka.
RASS voru brilljant (hvernig er EKKI hægt að elska þessa sveit?), en þó var hátindurinn þegar lúðrasveit Vesturbæjar lék með þeim í síðasta laginu. Það var ágætlega gaman að Dr. Spock, en mér hefur þó alltaf fundist RASS miklu skemmtilegri sveit. HAM voru þó kannski bestir (þriðja skiptið sem Óttarr tróð upp það kvöldið). Tóku fjögur lög: Animaliu, Partýbæ, Bulldozer og eitt lag sem ég þekkti ekki. Eftir þeim komu Ego og voru líka sterkir kandídatar fyrir toppsætið. Tóku Blindsker, Fjöllin hafa vakað og Móðir. Sérstaklega ætlaði allt um koll að keira í Fjöllin hafa vakað og ekki ofsagt að þakið ætlaði að rifna af húsinu.

Ekki er annað að sjá en nú sé vitundarvakning í náttúruvernd og mikið skrifað í blöðin. Er það vel. Samfylkingin, sem áður studdi Norðlingaölduveitu hefur nú snúist gegn henniþ. Samfylkingin hefði fremur stutt áformin ef samstaða hefði verið má milli Landsvirkjunnar og heimamanna, en gífurleg andstaða er við virkjunina meðal heimamanna. Er ekki batnandi flokki best að lifa?

Ég vil einnig óska Ungrót til hamingju, en tuttugu manna mótmæli þeirra í Iðnaðarráðuneytinu í gær rötuðu með mynd á forsíðu Fréttablaðsins.

mánudagur, janúar 09, 2006

Lag dagsins: „Jean Genie“ með David Bowie, af plötunni Aladdin Sane.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Skólinn hefst að nýju á morgun. Það er sannarlega margt að segja af tíðindum gærdagsins, en það verður að bíða morguns, sökum gífulegrar syfju undirritaðs.

föstudagur, janúar 06, 2006

Ritstjóri Fréttablaðsins fær lof í hattinn frá mér fyrir afbragðs góðan leiðara í dag(leturbreyting mín): Góður skáldskapur gleymist ekki: Gunnar snýr aftur.

Úff, hvað mér þykir þetta vel orðað. Eins og talað út úr mínu hjarta. Mæli með að fólk lesi þetta. :)

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Kleppur er víða...
Núna rétt áðan bankaði eldri kona og átti “erindi” við mömmu. Þar eð mamma var ekki heima fór tjáði hún mér hvað henni lá á hjarta. Hóf hún að fjasa einhvern samhengislausan vaðal sem ég hef ekki enn fengið botn í. E-ð Abbas, útlendingar, Þýskaland, Írak, Ólafur Thors, 100 ára afmæli lýðveldisins, sjálfstæðisflokkur, tungumál, Björn Bjarnarson, Keflavík, kommúnismi, fefefefefe...
Stóð þetta eintal yfir í e-ð tíu mínútur-kortér, nánast án öndunarpásu. Henni var mikið niðri fyrir og fjargviðraðist út í allt og ekkert, án þess að maður skildi bofs í því sem hún sagði, enda skipti hún um umræðuefni í sömu setningunni.
Það var augljóst áð hún var ekki med fulde fem.
Vissi ekkert hver þetta var, og kom á daginn að pabbi og mamma könnuðust ekkert við hana heldur, þegar ég sagði þeim frá þessu. Einhvern vegin kannaðist hún þó við þau.
Ég er hræddur um að ég sé stundum of umburðarlyndur við fólk. Ég ætlaði aldrei að geta losnað við þetta frúentimmer enda má hún eiga það, að hún gerði mann eiginlega kjaftstopp. Ég kunni ekki við að biðja hana að halda kjafti eða skella á hana, þó mér hafi verið það skapi næst.
Furðulegt atvik, svo ekki sé meira sagt. ...

The Grapes Of Wrath

Í lauk ég við að lesa The Grapes of Wrath eftir John Steinbeck. Bloggaði ég síðast um lestur hennar 8. september í fyrra. Það er alltaf furðuleg tilfinning þegar maður klárar góða bók. Annars vegar tilfinningin að maður hafi afrekað eitthvað, hins vegar einhver missir, þegarmaður er núna búinn með hana. Og þegar maður hefur verið niðursokkinn í bók og hrifist með henni, veit maður ekki alveg hvað maður á að segja um hana. Manni finnst það einhvern veginn aldrei nálgast þau hughrif sem maður upplifði við lestur hennar. Enda væri víst í senn hægt að finna nokkur orð eða hundrað. Mér þykir ekki undarlegt að þessi bók hafi fengið Pulitzer-verðlaun og að Steinbeck hafi hlotið nóbelsverðlaun, þá ekki síst fyrir þetta mikla verk, söguna af Joad-fjölskyldunni og öllum þeim bændafjölskyldunum sem voru reknar af landi sínu í kreppunni, seldu búslóð sína fyrir bílgarma og héldu í leit að fyrirheitna landinu. Miklar þjóðlífslýsingar og náttúrulýsingar prýða bókina. Persónurnar verða lifandi og eftirminnilegar. Þessi saga er uppfull af réttlátri og logandi reiði gagnvart kúgurum fólksins og gagnvart því ótrúlega hatri, miskunarleysi og fordómum sem það mætir, þar sem heilu fjölskyldurnar þreyja þorran eða svelta vegna þess að þeim er ekki komið til hjálpar, fá ekki vinnu eða mannsæmandi laun, geta ekki fengið mat handa sveltandi barni sínu og matnum er fremur fleygt eða beitt í eldsneyti en að hungrað fólkið fái að borða hann, svo hægt sé að halda verðinu uppi.
Sagan er þó um leið óður til mannlegrar reisnar, um viðleitni hans og kraft til að berjast mót ofurefli, sköpunarkraft hans og mikilvægi manngæsku og samstöðu, sést það best í því hvernig flóttafólkið kemur fram við hvert annað og hvernig það reynir að þrauka við erfiðustu aðstæður.
Eins og ég hef áður skrifað, tók nokkurn tíma fyrir mig að komast inn í bókina, hún virkaði ekkert léttmeti, en hún vann sannarlega á. Maður lærir betur og betur að meta stíl Steinbecks eftir því sem maður les áfram. Ég gæti eflaust tínt eitthvað meira til, og margt fleira myndi maður vilja segja en maður óttast alltaf að spilla lestri fyrir verðandi lesendum. Sjálfum finnst mér þetta vera bók sem fólk verði að lesa.

Spurning svo hvað maður les næst. Sýnist Íslenzkur aðall eftir Þórberg Þórðarson lofa góðu. Eins sýnist að ég muni hafa gaman að High Fidelity, eða einhverju öðru eftir Nick Hornby. Svo fer auðvitað skólinn að byrja og nóg að lesa þar, kannski ekki vitlaust að vera búinn að undirbúa sig. Það er eins og vinkona mömmu orðaði það "So many books, so little time" ;

Að lokum má ég til með að skella hér einni góðri tilvitnun úr The Grapes of Wrath(VARÚÐ, MÖGULEGUR SPILLIR):
They sat silent in the coal-black cave of vines. Ma said, “How’m I gonna know ‘bout you? They might kill ya an’ I wouldn’ know. They might hurt ya. How’m I gonna know?"
Tom laughed uneasily, “Well, maybe like Casy says, a fella ain’t got a soul of his own, but on’y a pice of a big one – an’ then –"
“Then what, Tom?”
“Then it don’ matter. Then I’ll be all aroun’ in the dark. I’ll be ever’where – wherever you look. Wherever they’s a fight so hungy people can eat, I’ll be there. If Casy knowed, why, I’ll be in the way guys yell whn they’re mad an’ – I’ll be in the way kids laugh when they’re hungry an’ they know supper’s ready. An’ when our folks eat the stuff they raise an’ live in the houses they build, why, I’ll be there....”

miðvikudagur, janúar 04, 2006

Hreingerning Einars, pars secundus
Sjaldnar kemur maður gleggra auga á það hvað maður á mikið af drasli og hafurtaski og þegar maður er að taka til. Gallinn er að flest af því vill maður eiga, geta haldið til haga, gengið að því vísu alla vega, og dágóðan slatta vill maður hafa í herberginu. Í mínu tilfelli er enda allt í drasli annars staðar og hillur fullar, vilji ég setja dótið þar, eða ekki á mínu yfirráðasvæði. Herbergið mitt er of lítið til að rúma allt sem ég myndi vilja hafa þar, umfram allt eru ekki nægar hillur. Það er líka eins og að draslinu fjölgi þegar maður ætlar að koma reglu á það, eins undarlega og það kann nú að hljóma. Nú þarf að vera pláss fyrir núverandi skólabækur, eins er gott að geta gripið til annara í ensku, sum ritsöfn vill maður hafa saman og blablabla. Grmbl. Þetta streð getur gert mann gráhærðan...

mánudagur, janúar 02, 2006

Gleðilegt ár, kæru vinir, og takk fyrir það gamla! :)

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.