miðvikudagur, júní 02, 2004

Fiðrildið brýst út úr púpunni. Hrafninn klekst úr eggi og krunkar sína fegurstu söngva. Glymur í hömrum og áin fossar auri. Mildur þytur í rökkvuðum skóg.
Stjarna tindrar í myrkrinu, döggin glitrar. Ljósberi morgunsins.
Kolbíturinn er risinn úr öskustónni og horfir út í dreirrauðan bjarmann. Hann lifir, hann andar hann elskar.
Askan er horfin en glóðin logar í brjóstinu.


Ég er stúdent. Útskrifaður úr lærða skólanum sem hefur verið mér annað heimili og hof í 4 ár. Eins og áður sagði eru eilítið blendnar tilfinningar sem vakna en vil ég gjarnan þakka skólanum, kennurum og ekki síst samnemendum mínum, félögum og vinum frábæra vetur. Ég segi það kannski ekki eins oft og mér bæri en þið eruð mér einstaklega dýrmæt og mér þykir óskaplega vænt um ykkur öll. Og ég óska stúdentum til hamingju (guð má vita hvað ég hef oft óskað sjálfum mér til hamingju, hehe)!

Þessir síðustu dagar hafa einkennst mjög af taumlausri gleði og glaumi. Ég hef tekið eilítinn Leonardo Di Caprio á þetta ala Titanic. Þetta er... yndisleg tilfinning. Gleði, hamingja og náungakærleikur flæðir um mig.
Athöfnin var afar góð sérlega skemmtilegur fyrsti ræðumaður, held að hann hafi verið e-ð 60-ára stúdent. Ég hef alltaf haft gaman af góðum, hlýjum og skondnum endurminningum frá menntaskólaárunum.
Og sú stund að standa þarna með húfuna í þvögunni, með prófskírteinið í hönd, það er stund sem líður æva úr minni. Gaudinn... Faunan... Og allir geislandi eins og nýslegnir túskildingar. ;)

Myndatakan tók dulítinn tíma og allir eflaust orðnir allfrosnir í framan, hélaðar grímur og sultardropi á nefi, hehehe.
Neinei, hún var fín.


Einvalalið var samankomið í veisluna, hún var stórkostleg og aldrei þessu vant þekkti ég flesta, hehe.
Eða svo ég vitni í sjálfan mig:

...hittast á
halir og snótir
Vel er vinafundur.

Fljótt tókust á leikar, kyrjað var hátt við raust og var þá hornið látið ganga svo óminnishegrinn fló okkur í hugarsali.
Mjög var ég þá úr heimi hallur...

Indæl er eftirpartý-stemmning einnig þegar við fóstbræður Aggi, Bragi og Vésteinn auk Heiðu og Elvars sitjum í kvöldrökkri við sumbl og andaktugar hugleiðingar. Glóir á bikarinn og sindra dreggjar.

Partýið hjá Helga var einnig þrumugott og kann ég honum og fjölskyldu bestu þakkir fyrir.
Þaðan haldið í bæinn að mála hann rauðan.
BLOOD-COLORRED!!! Múhúhúhúhahahahaha!
Framhald síðar....
(og lesendur bíða með öndina í hálsinum-kvakk!)

...lítill fugl hvíslar mér svo í eyra að ég sé kominn með svefngalsa. Það að ég sé farinn að eiga í hrókasamræðum við garghænsn gæti verið vísbending þess efnis... ;)


Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.