þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Það er yndisleg tilfinning að vera orðinn tvítugur. Samt er eins og maður sé varla búinn að venjast því (enda er ég einungis búinn að vera tvítugur frá því í gær). 18 er flott tala, 17 sleppur en þegar maður segir 19 ára, segir maður og hugsar um leið ,,að verða tuttugu”. Einkar plebbaleg tala e-ð og þetta er sannarlega ,,að verða tuttugu” aldurinn, maður telur niður dagana.
Skal nú rekið gróflega það helsta sem á daga mína dreif síðustu 3 daga.

Menningarnótt
Föstudag var Menningarnótt og rölti ég um bæinn með Dodda og Mossa að soga í mig menninguna. Nokkrir atburðir eru sérlega minnisstæðir. Fyrst hittumst við Doddi á pallborðsumræðum um myndasögur á Borgarbókasafninu. Hinni bráðskemmtilegi snillingur Hugleikur Dagsson stýrði umræðum, 5 fulltrúar ólíkra staða og sjónarmiða ræddust við og svöruðu spurningum úr sal. Var þetta í alla staði mjög skemmtilegt og fræðandi.

Á einhverjum tímapunkti áður en við Doddi hittum Mossa man ég að hungrið svarf að. Gladdi það glyrnur okkar að landssamband Kúabænda var með ókeypis heilgrillað naut og hugðum okkur gott til glóðarinnar. Þegar við höfðum loks brotist gegn um mikla þvögu fengum við að vita að þeir voru í klukkutíma hléi.

Einnig bera að geta málverkasýningar sem við Doddi sáum sem var úti í garðinum á Fríkirkjuvegi 11. Það vildi ég óska að ég myndi hvað málarinn heitir því þessar olíulandslagsmyndir hans voru hrífandi. Hrifnastir vorum við Doddi eflaust af sólarlagsmynd frá Drangey og næturmynd af Kapelluhrauni. Græn birta á þeirri síðarnefndu og draugaleg stemmning.

Þaðan héldum við aftur að grillinu og vonuðumst nú eftir vænni flís. Við sáum tannstöngla út undan okkur á borðinu.
Það boðaði ekki gott...
Þetta voru sumsé pínu-réttir og við Doddi urðum bara að gera sem best úr því. Kjötið var lygilega gott og því synd að skömmtun var ekki mikil á mann. Er við vorum í matarleit hittum við Mossa og bróður hans og fengum okkur vænan Nonna.

Í e-u porti rétt hjá Þjóðleikhúsinu (veit ekki hvað það heitir) léku Schpilkas gyðinga-og þjóðlagatónlist, Klezmer. Einstaklega skemmtileg, falleg og grípandi tónlist, ómögulegt annað en að dansa við hana, sem við og gerðum af miklum móð. Ég hafði mikla unun af þessari tónlist, finnst Klezmer frábær auk þess sem greinilegt var hversu miklir fagmenn voru á ferð sem spiluðu af tilfinningu og ástríðu. Slavnesk tónlist og sígaunatónlist heilla mig mjög mikið. Ragnheiður Gröndal söng nokkur lög með þeim og gerði það óaðfinnanlega.

Skildum við bróður Mossa ekki löngu síðar og erum þá þremenningar.

Við sáum eilítið af Egó. Fyrst tóku þeir fínt lag sem ég þekkti ekki. Svo tóku þeir Utangarðsmannalagið ,,Kyrlátt kvöld við fjörðinn” í nokkuð frjálslegri útgáfu, sem mér fannst ekki taka frumgerðinni fram. Sérlega fannst varð ,,jojó-ið” hans Bubba í tíma og ótíma fljótt þreytt og ég saknaði sárlega síðara gítarsólósins. Mun betur hljómaði svo sóló-lagið ,,Það þarf að mynda hana” sem bandið tók með miklum krafti, tilfinningu og tilþrifum”. Við piltarnir röltum í burt og fengum þá að heyra ,,Stórir strákar fá raflost” sem lét ljúft í eyrum.

Jagúar voru sjóðheitir í Pósthússtræti og nam okkur fljótt í trylltan dans. Frábærir tónleikar með frábærri hljómsveit.

Loks hugðumst við hlýða á Megas og Súkkat. Mætum á svalir Kaffihússsins við Tjörnina, þar sem þeir áttu að spila, kaupum veigar og fáum þessi líka fínu sæti. Okkur er þá tjáð að það verði auka 45 mínútur eða svo í meistarann (ekki í fyrsta sinn;). Þá var flugeldasýningin hafin og við kíktum auðvitað á hana (það gerði meistarinn líka). Hún var mjög glæsileg, fallegt að sjá reykmettaðan himininn upplýstan og sérlega fallegt að sjá reykinn sjálfan lýsa grænum og rauðum litum. Hungur var sigið á afmælisbarnið og fengum við okkur Pizzu á Pizza Pronto. Þegar við komim til baka voru svalirnar orðnar fullar og hætt að hleypa inn. Við hlýddum á nokkur lög og virtum fyrir okkur hnakka hljómlistarmannana og héldum svo í burt. Kvöddumst við fóstbræður svo með virktum og héldum hver sína leið.

Meira seinna

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.