þriðjudagur, júní 22, 2004

Here comes the sun do do do do
Here comes the sunand I say
it´s all right... :)

Af veðri, vinnu, Deep Purple og Kris Kristofferson;

Já, það er sannarlega búið að vera ljómandi veður undanfarið. Ég átti frí í dag og gatt því notið þess vel þó ég drattaðist seint úr bólinu. Var bara á rölti í veðurblíðunni í dag auk þess að lesa í Yfir Ebrofljótinu. Nú á ég 26 síður eftir. Búinn að vinna sjö daga í röð, svo þetta var afar kærkomið. Er á morgun-og næturvakt á morgun. Fattaði hins vegar í dag að Deep Purple tónleikarnir (sem ég á miða á) eru á fimmtudaginn, en þá er ég á næturvakt. Vonandi að ég get átt vaktaskipti við einhvern.
Ég bið ykkur ananrs að afsaka bloggleysi mitt undanfarið, því ollu leti, annir og ritstífla. Auk þess sem blogger-síðan var í einhverri serðingu. Ég skal nú reyna að bæta úr því.

Bróðir minn kær bauð mér á tónleika Kris Kristofferson um daginn og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Við komum nokkuð seint og náðum í skottið á KK, sem hitaði upp ásamt Ríó Tríó. Hann brást ekki fremur en fyrri daginn, flutti tvö-þrjú lög sem ég þekkti ekki, afbragðs lög engu að síður, og loks kallaði hann systur sína Elleni Kristjánsdóttur upp og sungu þau hið yndislega og ljúfsára When I Think of Angels
Loks var svo komið að manninum sjálfum. Ég hafði satt að segja varla heyrt neitt með honum, að mér vitandi en heillaðist gjörsamlega af honum. Ég bloggaði áður um raddir sem hafa sterk áhrif og það á sannarlega við um Kris. Það sem stendur upp úr hjá mér í minningu þessa kvölds er...fegurð. Rödd hans var rödd hinna smáðu, samúð með lítilmagnanum og utangarðsfólki, ádeila á hatur, falsáróður, og styrjaldarbrölt (svo dæmi sé tekið) og boðskapur friðar. Hann spannaði nánast allan ferill sinn og að mínu mati er hann jafn mikið ljóðskáld og tónlistarmaður, djúpir pólítískir en um leið myndrænir textar sem vekja mann til vitundar, hann vílar ekki fyrir sér að gagnrýna það sem aflaga er í þjóðfélaginu og hreinskilnin og einlægnin skein í gegn.
Ég hef lengi haft gaman að kántrí-og þjóðlagatónlist en ólíkt því sem getur oft gerst með slíka tónlist varð tónlist Kris aldrei afkáraleg eða hjákátleg, með fagurri tónlist, djúpum textum, og hógværð og einlægni lyfti hann um leið þessari tónlist á æðra stig.
Það gekk svo sem ekki alveg hnökralaust, hann þurfti að stilla gítarinn og sneri á e-um stað munnhörpunni öfugt en hann gerði góðlátlegt grín að því. Og þegar til allra tónleikanna er litið skipta ein eða tvær feilnótur ekki miklu.
Eins fannst mér Magnús Ólafsson/Bjössi bolla ekki eiga vel heima sem kynnir á þessum tónleikum. Ég var ekki kominn á tónleika til að sjá trúðslæti eða kjánalegan neðanbeltishúmor (sem ég slapp blessunarlega að mestu við, en heyrði síðar af). Vissulega var skondin gamansagan af Johnny Cash og Kris en undir lokin þegar fólk sat í andakt yfir einu seinustu laganna og hlustaði þögult og hugfangið á tónlistina var karlinn (Magnús) að reyna svifla höndunum eins og til að stjórna fjöldaklappi. Það fannst mér vægast sagt ekki viðeigandi.
Ánægjulegt að tókst að fylla höllina. Og fallegt í endann þegar lýsingin minnti á blóðrautt sólarlag.
Allt í allt voru þetta stórkostlegir tónleikar og ég fór af þeim með yl í hjarta og breitt bros á vör. Nú munum við bræður eflaust keppast um að kaupa plötur með kappanum. Ég þakka Vésteini, KK og Kris Kristofferson ógleymanlega stund.

Jæja, mér er víst hollast að ganga til náða núna. Góða nótt.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.