laugardagur, júní 12, 2004

Ég er kominn í vinnu. Loksins! Dögum mínum sem auðnuleysingja og afætu á samfélaginu er lokið, alla vegana í bili.
Ég vinn núna á Hrafnistu í Hafnarfirði í aðhlynningu, þriðja degi mínum er lokið og ég er núna í helgarfríi. Svo mun ég vinna fimm daga vikunnar og verð á vakt aðra hvora helgi.
So far, so good.

Ég kann vel við mig í vinnunni og þykir sérlega ánægjulegt hve vel er hugsað um fólkið og mikið gert fyrir það. Það syngur og dansar og það yljar manni óneitanlega um hjartarætur að sjá þau skemmta sér svona vel.


-And now for something completely different.
Sönn ferðasaga frá Hafnarfirði til Reykjavíkur

Börn geta verið yndisleg og bjartir sólargeislar í grámóskulegt líf manns. En þau geta líka verið hávær öskrandi og frek bévítans kvikindi.

Ég kynntist seinni sortinni í strætó á leið heim úr vinnu í gær. Dauðuppgefinn eftir langann dag og slitróttan svefn um nóttina steig ég inn í vagninn og sökkti mér í sætið og vonaðist til að geta fengið mér eilítinn hænublund þar til við kæmum á áfangastað. Rétt hjá mér sat kona með tvo krakkagrislinga kerru. Ég sá ekki framan í ófétin svo fyrir mér hljómaði þetta eins og tvíhöfða beljandi ófreskja, spúandi eldi og eimyrju sem konan réði ekkert við. Krakkarnir öskruðu og grenjuðu, (frekjugrenj nota bene og krókódílatár) svo undir tók í sjálfrennireiðinni
Samtalið var eflaust eitthvað á þessa leið:

Kona: (óstyrkri mjúkri röddu): Eh... mannstu eftir svörtu kisunni sem við sáum í dag?
Kornabarn (digurbarkalega): NEI!!! HÚN VAR HVÍT!!!
Seinni hvítvoðungur: HVÍT!!! HRÍÍÍÍÍÍÍÍN!!!!!!
Ég: Urrrrghhhhhhh....
Kona: Svo voru fuglar og kið skoppandi um tún og engi...
Kornabarnið (valdmannslega): NEI!!!!
Hvítvoðungurinn: GRENJJJ
Barnakór: VÆÆÆÆÆÆÆL!!!
Kona: Olfert, viltu fá húfuna? Mannstu eftir rauðu húfunni?
Kornabarn: Já, gemmér, gamla herfa!!! Væææææææl!!!!!
Ég: Gnnnnyyyyyaaaaaaarrrgghhhh!!!

Konan hafði enga stjórn á þessu, börnin voru eins og.. fullir dvergar eða eitthvað (með fullri virðingu fyrir dvergum)! Konan brosti vandræðalega og leit flóttalega í kring um sig. Ég sendi þeim morðaugnaráð og hugsaði þessari indælu fjölskyldu þegjandi þörfina.

Mikið væri nú gott ef börn væru eins og sjónvörp, maður gæti bara skipt um stöð eða sett á mute. Þangað til verða heftiplástrarnir að duga.

En það leiðir okkur að öðru. Ábyrgðin er auðvitað foreldranna. Og það er munur á að vera góður við börn og láta allt eftir þeim. Þetta bar öll einkenni hins síðara. Maður verður einfaldlega að vera ákveðinn stundum, annars læra börnin það að þau fái ALLT sem þau vilja, verða frekari og frekari og umturnast í litlar ófreskjur. Þetta er allt spurning um rétta félagsmótun, börn fæðast ekki sem hálftröll en með röngu uppeldi geta þau orðið það.Og ég get ekki trúað að nokkur foreldri vilji að barnið þeirra verði að litlum þurs, þannig að best er að byrgja brunninn strax áður en barnið fellur í hann.





Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.