laugardagur, desember 24, 2011

En það bar til um þessar mundir...



Nú líður að jólum, og fólk fagnar vetrarsólstöðum, hver með sínum hætti. Kristnir halda upp á fæðingu Jesú krists, sem álitinn er hafa fæðst í Betlehem í Júdeu, þar sem núna heitir Vesturbakkinn og er á herteknum svæðum Palestínu. Hann er kenndur við náungakærleik og fyrirgefningu og meðal fegurstu kaflanna í Biblíunni eru orðin sem lögð eru í munn hans í fjallræðunni sem og gullna reglan, sem margir telja að sé kjarninn í boðskap hans og menn ættu að geta sameinast um, óháð trúarskoðunum: “Það sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gjöra”.

Jólaguðspjallið er flutt í Ríkisútvarpinu ár hvert. Þar segir frá trésmið sem hélt með þungaðri konu sinni til þorpsins Betlehem í Galíleu, svo Rómverjar, sem voru þá með hersetu í landinu, gætu skráð hann í manntali sínu. Ekkert gistirými var að finna svo þau urðu að hírast í fjárhúsi. Lesendur kannast að öllum líkindum við söguna.

En hvað er að gerast í Betlehem í dag? Aðskilnaðarmúr liggur þvert í gegn um borgina, Ísraelsher takmarkar aðgengi pílagríma og landið er hersetið. Svo dæmi sé tekið gæti palestínskur trésmiður með þungaða konu, við getum kallað hann Youssef, þurft að bíða endalaust við eftirlitsstöðvar Ísraelshers eða að hann kæmist ekki vegna vegatálma. Hvort hann kæmist í gegn færi í raun eftir duttlungum ísraelsks hermanns, sem líklega væri rétt í kringum tvítugt. Dæmi eru um að konur hafi þurft að fæða börn við vegatálma eða eftirlitsstöðvar vegna þess að þeim var ekki hleypt í gegn og margar hafa látist af barnsförum þar sem þær fengu ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Þar sem Youssef er Palestínumaður þyrfti hann sérstakt leyfi hernámsyfirvalda til þess að mega ferðast til Jerúsalem. Á dögunum gáfu hernámsyfirvöld t.a.m. leyfi fyrir 40 nýjum landtökubyggðum í Betlehem.

Samtímis hefur Ísrael lokað einni af aðkomuleiðunum að Al-Asqa moskunni í Jerúsalem, einum mesta helgistað múslima í heiminum, en minnumst þess að borgin er í senn helg kristnum, múslimum og gyðingum.

Í þorpinu Nabi Saleh á Vesturbakkanum mótmælti fólk friðsamlega hernáminu en Ísraelsher svaraði með ofbeldi. Ungur maður, Mustafa Tamimi, lést af sárum sem hann hlaut þegar ísraelskur hermaður skaut táragassprengju í andlit hans úr návígi. Mustafa var 28 ára gamall og á ættingja hér á landi.

Landtökumenn hafa bæði stolið landi og vatni þorpsbúa. Tugir voru handteknir fyrir þáttöku í mótmælunum.

Yfirlýstir stuðningsmenn Ísrael birta iðulega greinar í Morgunblaðinu. Oft tala þeir um kristileg gildi sem þeir aðhyllist. Munu þessir stuðningmenn fordæma aðgerðir hermanna og landtökufólks? Munu prestar minnast á þetta í predikunum sínum þegar talað er um Betlehem, eða skiptir það eitt máli sem á að hafa gerst fyrir 2000 árum? Mun fólk almennt, hvaða lífsskoðanir sem það annars aðhyllist, taka sér stöðu með mannréttindum og baráttunni fyrir því að hernáminu ljúki og friður komist á? Eða fáum við réttlætingar á þessu framferði og friðarkveðjur í sömu andránni? Mun fólk fussa yfir því hvað þessir arabar/múslimar sé nú klikk? Eiga skilaboðin með slíku skeytingarleysi kannski að vera þau að guð búi fyrst og fremst í gaddavírnum, amma, svo vísað sé í frægt lag Megasar?

Hvað myndi Jesús gera?

Einar Steinn Valgarðsson
Höfundur er í MA-námi í enskukennslu við HÍ og situr í stjórn í Félagins Ísland-Palestína..
Greinin birtist samdægurs bloggfærslunni í Morgunblaðinu á bls. 34..

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.