fimmtudagur, janúar 06, 2005

Flugeldafár

Þann 30. desember 2004, þegar gamla árið var að líða sitt skeið á enda var ég að brjálast yfir hinni grábölvuðu síbylju flugeldasprenginga sem tröllreið borginni allan daginn. Af hverju getur fólk ekki alltént hundskast til að bíða? Hávaðinn ætlaði allt um koll að keyra. Dýr vita ekki hvaðan á þau stendur veðrið í slíkum ofsalátum. Mörg ærast hreinlega og ekki að undra, á áramótum mætti halda að dómsdagur væri runninn upp, slíkur er hávaðinn. Skemmst er að minnast um árið, þegar hross ærðust við sprengingar í Mosfellsbæ og brutust út úr hesthúsum, hlupu fyrir hamra og fórust.
Og hvað með gamalt og/ eða hjartveikt fólk, slíkar sprengingar við næstu húsadyr geta hreinlega gengið af þeim dauðum! Er virkilega ekki komið nóg af brjálseminni?
Á hverju ári eyðum við svo ógrynni fjár í þessa vitleysu, sem eyðist sama kvöld, þetta er svipað og að skeina sér með gullklósettpappír, himinninn stendur í ljósum logum alla nóttina og hávaðanum mætti líkja við þann er glymur úr horni Heimdallar í Ragnarökum. Að ógleymdri loftmenguninni, brennisteinsþokunni sem liggur síðan yfir bænum.
Það er afar gott að styrkja Landsbjörgu en þetta er ekki rétta leiðin til þess, ekki á meðan aminn er slíkur af draslinu. Það er ekki lausn að skapa vandamál. Ég held, þvert á móti að landsmenn mættu sjá sóma sinn í að styrkja Landsbjörgu með frjálsum framlögum í stað þess að spreða fé í gagnslaust rusl.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.