sunnudagur, september 19, 2004

Áströlsk frumbyggjatónlist og íslensk þjóðlög

Í fyrradag upplifði ég einstakan atburð er ég fór á tónleika í salnum.
Dagskráin var áströlsk frumbyggjatónlist og íslensk þjóðlög.

Upphaflegir fiðlu- og sellóleikarar og söngkonur forfölluðust og man ég því miður ekki nöfn þeirra sem komu í staðinn.
Fyrst lék stengjakvartett fjögurra stúlkna lag sem ég man því miður ekki hvað heitir, en mun vera eftir Jón Ásgeirsson, úre Sölku Völku.
Síðan sungu söngkonurnar María meyjan skæra og Ísland farsælda frón.

Fyrstur steig á stokk Diddi fiðla. Hann var bráðskemmtilegur og sýndi listir sínar er hann lék nokkur íslensk þjóðlög á langsspil og íslenska fiðlu með miklum ágætum.
Næstur var Steindór Andersen og tóku þeir Diddi eitt fimmundarlag saman. Þetta er textinn:
Höldum gleði hátt á loft
helst það seður gaman
þetta skeður ekki oft
að við kveðum saman

Var Steindór líka hress og gamansamur eins og venjulega og notaði tækifærið að auglýsa nýútkomna bók Kvæðamannafélagsins Iðunnar, þar sem voru diskar með upptökusafni frá þriðja áratugnum, textar og nótur. Hann kvað svo sjálfur nokkrar vel valdar rímur. Við eina lék ástralinn Buzby Birchall með honum á didgeridoo, en Birchall er einn af þeim sem stendur að komu ástölsku fumbyggjanna hingað. Það hljómaði þokkalega en var fyrst og fremst virðingarverð tilraun að samræma ólíka menningarheima. Við þriðju vísuna hafði Himar Örn Hilmarsson útsett tónlist við og lék hann undir ásamt strengjasveitinni. Magnað verk, fékk mig til að hugsa um kaldar öræfanætur í auðn á Íslandi dimmt haf og sjóreka.


Eftir hlé gerði Birchall áhorfendum grein fyrir samstarfsverkefni þessu og kynnti tónlistarmennina.
Voru þar komnir þrír menn af Yolgnu-ættstofni í Arnem í Ástralíu að leika tónlist fólks síns.
Yirryirrngu Ganambarr, helgiathafnasöngvari, Mirrwatnga Munyarryun, hátíðar yidiaki (didgeridoo)-spilari, og Ngongu Ganambarr, yidiaki-smiður.
Tilheyrðu þessir menn Yolngu-ættflokki sem býr í Arnhem-landi í Ástralíu. Skiptist hann svo í marga minni, Yirryirrngu og Ngongu munu vera af Datiwuy-ættbálki en Mirrwatnga afWangurri-ættbálki.
Þessi tónlist og dans er eflaust þau elstu sem til eru í heiminum í dag.
Kallaðist helgiathöfnin Bunggul sem þeir sýndu sem byggðist á söng Yirryirrngu sem einnig lék á tréstúfa, en hinir tveir léku á yidiaki. Svo steig annar, mikill maður og holdugur dans við söng og undirleik hinna. Merkilegt hve fjölbreytilegan og framandi hljóm er hægt að gera með yidiaki og hvað maður skynjar mikið í því. Sama gilti einnig um hina miklu rödd Yirryirrngu og ótrúlegan limaburður dansarans. Tungumálið heillaði mig einnig og hljómfall þess, og allt þetta magnaða samspil söngs, dans og hljóðfæraleiks.
Ég fylltist lotningu og hrifningu fannst einstakt að fá að upplifa þetta, þessa fornu, fjarlægu og framandi menningu sem er svo ólík öllu sem við eigum að þekkja á vesturlöndum og kynnast viðhorfum þeirra til lífsins. Sérlega í ljósi þess að frumbyggjar yfirgefa nær aldrei heimkynni sín og eru þeim sterkt bundnir. Undrar mann ekki að þeir séu komnir með heimþrá, hafandi verið 3 vikur í burtu. Jeremy Cloake, sérfræðingur í tónlist þeirra segir að þessi forna tónlist tjái í senn, tengsl við náttúru, landið, fólk og dýr, fortíð og uppruna, guði og alheiminn. Las einnig í efnisskráni minni að Youlgnu fólkið trúir því að alla sköpun megi rekja til samhangandi athafna frá forsögulegum tíma. Forfeður þeirra úr andaheiminum ferðuðust um auðn og skópu alla hluti hins efnislega heims, þar á meðal Yolngu og málýskur þeirra
Þetta virðist þeirra óður til lífsins, og þessi goðsögn og saga þeirra og menning er varðveitt með söngvum og dönsum gegn um kynslóðirnar.
Þar skipar didgeridoo stóran sess og mun það sérlega heilagt frumbyggjum.
Ekki stóð á viðtökunum, salurinn réð sér varla fyrir hrifningu og var þeim klappað lof í lófa. Fólk reis úr sætum. Tóku þeir lokalagið aftur og kvöddust áhorfendur og flytjendur með gagnkvæmri gleði og þökk.
Ég þakka kærlega fyrir að hafa fengið að njóta þessa einstaka atburðar, en þeir sem misstu af þurfa ekki að örvænta, því Smekkleysa stefnir á útgáfu tónlistar þeirra og verður einnig gerð heimildamynd um ferð þeirra.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.