föstudagur, september 03, 2004

Þjóðminjar

Við bræður vorum boðflennur við opnun Þjóðminjasafnsins í fyrradag og fórum ásamt föður okkar. Það var mikil athöfn, þegar við komum kvað Steindór Andersen rímur við undirleik Hilmars Arnar Hilmarssonar. Þorgerður Katrín hélt þokkalegt erindi en þrátt fyrir áhersluna á 60 ára afmæli lýðveldisins fannst manni fullmikið að bíða í 6 ár eftir að húsið dratthalaðist loks í lag. Nokkrir af framamönnum þjóðarinnar fluttu svo ávarp auk forstöðumanns þjóðminjasafns Dana. Guitar Islancio lék nokkur lög. Guðrún María Jóhannsdóttir söng einnig nokkur lög og í ,,Húsgangi" eftir Jónas Hallgrímsson söng skólakór Kársness með, undir stjórn Þórunnar Björnssdóttur, betur þekkt sem Tóta. Sá líka Marteini bregða fyrir. Þegar Guðrún söng ,,Hvert örstutt spor" úr Silfurtúnglinu eftir Halldór Laxness játa ég að ég klökknaði og felldi tár. Því þetta ljóð og lag finnst mér með þeim fallegustu, ljúfsárustu og einlægustu sem samin hafa verið á íslensku.
Húsið er orðið mjög álitlegt, mikill tvöfaldur salur og tröppur upp sem leiddu okkur á kjarnasýninguna, þjóð verður til. Þótti okkur bræðrum hún afar glæsileg. Ekki var svo amalegt að geta gætt sér á snittum, víni og sódavatni og spjallað við fræga fólkið. :)

Það er hræðilegt að hugsa til þess að á meðan við erum að opna safnið okkar eru mörg helstu menningarverðmæti heims ýmist glötuð, eyðilögð eða í útrýmingarhættu. Í Írak, hinni fornu Mesópótamíu, vöggu menningar hefur verið unnið stöðugt að því að brjóta niður sögu mannkynsins alls. Söfn hafa verið rænd án þess að hersetuliðið hafi nokkuð gert til að koma í veg fyrir það, þyrlupallur yfir forn jarðlög með ómetanlegum fornleifum, fornt leikhús notað sem vélageymsla, grafið í hauga o.s.frv.
Sverrir Jakobsson sagnfræðingur fjallar um þetta í afar góðri grein á bls. 20 í Fréttablaðinu í dag. Mæli með að fók lesi hana.
Sjálfur fjallaði ég dálítið um þetta í grein sem ég skrifaði í íslensku í vetur. Pósta henni við tækifæri.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.