fimmtudagur, ágúst 26, 2004


Áðan sá ég yndislega kvikmyndaklassík á Þjóðarbókhlöðunni. Það var meistaraverkið Faust eftir F.W. Murnau frá árinu 1926. Murnau er þekktastur fyrir annað meistaraverk; Nosferatu-Eine Symhonie des Grauens (hryllingssynfonía), sem var ein fyrsta vampírumyndin og ein eftirlætismyndin mín. Faust hefur nú bæst í þann hóp. Hefði Murnau einungis gert Nosferatu hefði það samt nægt til að nafn hans lifði að eilífu. En hann lét sér greinilega ekki eitt meistaraverk nægja. Eins og nafnið ber til kynna segir sagan hina klassísku táknrænu dæmisögu um baráttu góðs og ills yfir mannssálinni. Og hver er betur til þess fallinn að takast þetta verk á hendur en Murnau, meistari myrkurs og ljóss, fegurðar og dramatíkur, einn mesti meistari, frumkvöðull og sjáandi kvikmyndasögunnar. Sýn hans á verkið og meðferð er stórfengleg sem og máttur hans til að vekja dýpstu tilfinningar manns. Ég vil ekki spilla fyrir ykkur sögunni um of en segi ykkur þó að í bestu atriðum myndarinnar, byrjuninni, og þegar dramatíkin, myrkrið og harmurinn stigmagnast eftir því sem líður á og sérstaklega í ógleymanlegri endasenunni, stendur maður á öndinni.

Engin ummæli:

Síðan er knúin af Blogger. Þórarinn Björn Sigurjónsson hannaði útlit.